Óvægin valdabarátta forystuhrúta

Forystusauðir eru margir til kallaðir þessa dagana, en færri útvaldir. Samhliða refskák í pólitíkinni fór fram önnur en ekki alls ósvipuð valdabarátta í Mýrdalnum í gær, þar sem kröftugir hrútar skelltu saman hornum. Slagsmálin eru beggja blands, átök um völd og fögnuður yfir frelsi vorsins.

Jónas bóndi Erlendsson í Fagradal hleypti hrútunum sínum út í gær í fyrsta sinn þetta vorið. Rétt eins og kýrnar sletta hrútarnir úr klaufunum þegar þeir sleppa úr prísund þröngrar stíu yfir veturinn og fá almennilegt frelsi. Með átökum fyrsta dagsins í útigangi er virðingarröðinni komið á og eftir það fellur allt í ljúfa löð.

„Þegar þeir eru búnir að skipta með sér verkum þá eru allir ánægðir. En það eru dæmi um það að þeir hafi drepið hver annan og sérstaklega ef hrútarnir eru kollóttir. Þeir eru viðkvæmari fyrir svona barningi,“ segir Jónas. Fyrir þá sem ekki vita eru kollóttir hrútar þeir sem ekki vex horn.

Hrútarnir í Fagradal hafa þó aldrei gengið hver af öðrum dauðum, en þeir vankast stundum við höggin enda draga þeir ekkert af sér þegar þeir stangast á. „Þetta er bara eins og í pólitíkinni, nema þeir berjast kannski ekki alveg svona rosalega. Og þó veit maður aldrei hvað gerist bak við tjöldin,“ segir Jónas.

Sauðburður er að hefjast eða hafinn á flestum bæjum í Mýrdalnum. Veturgömlu hrútarnir verða á húsi fram yfir sauðburð, enda eru þeir ekki miklir bógar í slagsmálin ennþá. Það tekur um tvö ár fyrir hornin að ná jafnglæsilegum vexti og sést á slagsmálahrútunum hér að ofan.

Valdabarátta hrútanna er einn af vorboðunum en tíðarfarið hefur reyndar verið sérlega gott að sögn Jónasar. „Það er búið að vera hér sunnanlands, allavega hér í Mýrdalnum, jafngott tíðarfar eins og það er búið að vera slæmt fyrir norðan. Menn muna varla eftir jafngóðri tíð allan veturinn, það hefur varla snjóað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert