Huang Nubo gengur á Everest

Það er misjafnt hvað fólk leggur á sig til að …
Það er misjafnt hvað fólk leggur á sig til að ná mynd af sér á toppi veraldar. Ljósmynd/Leifur Örn

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo gengur nú á Everest. Hann hefur dvalið í sömu grunnbúðum við fjallið og íslenski Everest-farinn Leifur Örn Svavarsson. Allir Íslendingar ættu að kannast við Huang sem ætlaði sér að kaupa hluta jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum og byggja þar hótel og golfvöll.

Í færslu á vef fjallaleiðsögumanna, þar sem fylgst er með ferð Leifs Arnar, segir að Huang sé að fara einn á topp Everest og það í annað sinn. Í fylgd með honum er þó stór hópur starfsfólks. Í hópnum er fleira starfsfólk en fylgir 13 manna gönguhópi Leifs Arnar.

Huang er með marga sjerpa (nepalskir leiðsögumenn), kokka og nóg af súrefni til að gera gönguna sem þægilegasta.

 „Þegar hann fór á toppinn í fyrsta sinn þá lagði hann af stað um miðja nótt í svarta myrkri með fullt af sjerpum og helling af súrefni. Gangan gekk það vel fyrir sig að hann náði toppnum fyrir sólarupprás en hann var það snemma á ferðinni að hann þurfti að snúa við aftur af toppnum í myrkri án þess að ná mynd. Nú ætlar hann sem sagt að fara aftur til þess að ná mynd af sér á toppi veraldar,“ segir í færslunni á vef Fjallaleiðsögumanna.

Huang notar ekki sömu línur og allir aðrir fjallamenn. Hann lætur leggja fyrir sig sérstakar línur þar sem hann treystir ekki hinum línunum og finnst þær vera of brattar, segir vef Fjallaleiðsögumanna.


Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert