Peysa kom Casanova til bjargar

Casanova finnst gaman að láta halda á sér og kúra …
Casanova finnst gaman að láta halda á sér og kúra í hálsakoti. Guðmundur Freyr Kristbergsson

Kiðlingurinn Casanova heldur á sér yl með hjálp peysu sem eigandinn prjónaði á barn sitt fyrir 16 árum. Casanova veiktist skömmu eftir fæðingu og missti alla ullina. Að sögn Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur, geitabónda á Háafelli í Hvítársíðu, var Casanova vart hugað líf í fyrstu en með hjálp sýklalyfja og peysunnar hlýju braggast hann vel.

Í fóstur hjá Hnetu gömlu

„Lífmóðir hans hafnaði honum en hann var settur í fóstur hjá annarri geit, henni Hnetu gömlu, sem hafði misst kiðið sitt. Hún tók honum rosalega vel. En svo varð hann bullandi veikur, fékk einhverja sýkingu og hita. Þá gerist það stundum að þau missa alla ullina á meðan hitinn gengur yfir. Venjulega verða þetta bara aumingjar, öll í keng,“ segir Jóhanna.

Hún segist hafa ákveðið að klæða Casanova í peysu sem hún prjónaði á yngstu dóttur sína, Hrefna Þorbjarnardóttur, fyrir 16 árum. Hrefna var 20 merkur þegar hún fæddist og peysan of lítil strax eftir að hún fæddist. Því var hún ónotuð þegar Casanova fékk hana. „Hún passaði ljómandi vel á hann. Svo hefur hann dafnað og dafnað og leikur sér eins og aðrar geitur,“ segir Jóhanna.  

Fljótur í næstu stíur

Jóhanna segir að hann hafi fengið nafngiftina Casanova eftir hinu rómaða kvennagulli þar sem hann var fljótur að færa sig yfir í næstu stíur til að leika sér við huðnurnar eftir að hann varð frískur. Jóhanna segir að peysan hafi skilið á milli lífs og ólífs. „Það var mjög kalt fyrstu næturnar eftir að hann fæddist. Ég hugsa að hann hefði ekki orðið mjög beysinn ef peysan hefði ekki komið til. Hann hafði ekki orku til að drekka í veikindunum,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir að Casanova stækki jafnvel enn hraðar en aðrir kiðlingar. „Hann er mjög kátur, kemur hlaupandi þegar maður kallar á hann og finnst voða gott að láta halda á sér og kúra í hálsakoti; svona eins og lítill hundur,“ segir Jóhanna. 

Casanova sáttur í bleiku peysunni sinni.
Casanova sáttur í bleiku peysunni sinni. Embla Karen Jónsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert