Þrengsli í fangelsum víða vandamál

Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alls sátu 149 fangar inni á Íslandi í september 2011. Það þýðir að hér á landi eru innan við 50 fangar á móti hverjum 100.000 íbúum, tíðni sem er með því lægsta í Evrópu. Yfirfull fangelsi er að finna í tæplega helmingi Evrópulanda og þar sem verst lætur eru yfir 150 fangar á móti hverjum 100 plássum. Ísland er ekki þar á meðal.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem gefin var út af Evrópuráðinu á föstudag en upplýsingarnar eru teknar saman af afbrotafræðideild Lausanne-háskóla í Sviss. Evrópuráðið segir ljóst að þrengsli séu víða vandamál í evrópskum fangelsum. Tölurnar eru frá árinu 2011.

Tæplega 2 milljónir í evrópskum fangelsum

Fangar í Evrópu voru 1.825.356 talsins í september 2011. Aðeins 5,3% þeirra voru konur og var meðalaldurinn 33 ár. Flestir sátu af sér dóma fyrir brot á eiturlyfjalöggjöf eða þjófnað, um 17% í hvorum flokki. 12% sátu inni vegna ráns og 12% vegna morðs. Meðallengd fangelsisdóma árið 2011 var 9 mánuðir og meðallengd gæsluvarðhalds áður en dómur var upp kveðinn var 5 mánuðir.

Að jafnaði var um 21% fanga útlendingar í hverju landi fyrir sig, en mikill munur var þó milli landa því í austurevrópskum fangelsum eru útlendingar innan við 2% fanga en í vesturevrópskum fangelsum eru yfir 30% fanga útlendingar.

Hlutfallslega flestir fangar í Rússlandi - fæstir hjá smáríkjunum

Á Íslandi voru 46,8 fangar á hverja 100.000 íbúa árið 2011. Þetta er með því allra lægsta sem gerist í Evrópu og skipar Ísland sér í flokk með öðrum smáríkjum álfunnar, Andorra þar sem hlutfallið er 42,3 fangar á hverja 100.000 íbúa og Liechtenstein þar sem hlutfallið er 36/100.000.

Áberandi fæstir fangar eru reyndar í örríkinu San Marínó. Þar sátu aðeins tveir inni í september 2011, sem þýðir 6,3 fanga á hverja 100.000 íbúa, en þess ber að geta að rétt rúmlega 32 þúsund manns búa þar í landi. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er hlutfall fanga um 71 á hverja 100.000 íbúa en í Finnlandi rúmlega 60/100.000.

Hvergi eru hlutfallslega fleiri fangar en í Rússlandi, þar sem 546 fangar sitja inni á móti hverjum 100.000 íbúum. Næsthæst er hlutfallið í nágrannaríkjunum Georgíu (541/100.000) og Aserbaídsjan (417/100.000).

Mest þrengsli í serbneskum fangelsum

Í 20 af 47 löndum Evrópuráðsins voru fleiri fangar í haldi en húsrúm fangelsa leyfði árið 2011. Verst var ástandið í Serbíu, þar sem 157,6 fangar voru á hver 100 fangelsispláss. Eftir fylgdu Grikkland, með 151,7 fanga á hver 100 pláss og Ítalía með 147 fanga á hver 100 pláss.

Ástandið er svipað í Belgíu þar sem 127,2 fangar voru á móti 100 plássum og Ungverjaland þar sem 138,2 fangar voru á móti 100 fangelsisplássum. Önnur lönd sem ekki komu nógu vel út voru m.a. Frakkland, þar sem fangar eru 113,4 á móti hverjum 100 fangelsisplássum.

Færri fangar en pláss

Hér á Íslandi voru árið 2011 að jafnaði 92,5 fangar á móti hverjum 100 fangelsisplássum. Þetta er undir Evrópumeðaltalinu, sem er 99,5/100. Af Norðurlöndum öllum var ástandið verst í Finnlandi þetta ár, því þar sátu 105,2 fangar inni á móti hverjum 100 plássum. 

Í Danmörku og Svíþjóð var hlutfallið líka hærra en á Íslandi, eða 95,5 og 96,6 fangar á móti 100 plássum, en í Noregi var hlutfallið lægra en á Íslandi, 92,2 fangar á hver 100 fangelsispláss.

Skýrsla Evrópuráðsins um stöðu fangelsismála í Evrópu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert