Hamfaragos skráð í árhringi fornskógar

Svæðið Drumbabót er við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Þar stendur …
Svæðið Drumbabót er við eyrar Þverár í Fljótshlíð. Þar stendur fjöldi fornra trjádrumba 20-60 cm upp úr sandi. Ljósmynd/Hrafn Óskarsson

Sumarið 822 eftir Krist stóð birkiskógur þar sem nú eru eyrar Þverár í Fljótshlíð. Ummerki trjánna má enn sjá á svæðinu, sem nefnist Drumbabót og eru það best varðveittu fornskógaleifar á landinu. Í vetur voru gerðar nýjar rannsóknir á trjálurkunum sem greina aldur þeirra nákvæmar en fyrr.

Rannsóknastöð Skógræktar Íslands að Mógilsá hóf athugun á fornskógarleifunum í Drumbabót fyrir áratug. Á svæðinu stendur fjöldi trjádrumba um 20-60 cm upp úr sandi og hafa mælingar sýnt að trén drápust samtímis, vegna þess að árhringurinn næst berkinum myndaðist sama árið á öllum trjánum.

Fræðimenn leiða líkur að því að fornskógurinn hafi eyðst í einu af fjölmörgum jökulhlaupum sem farið hafa til vesturs niður Markarfljótsaura, oftast undan Mýrdalsjökli vegna eldsumbrota í Kötlu.

Síðasta vaxtarsumarið var árið 822

Árið 2004 voru gerðar aldursgreiningar með geislakolsgreiningu á forntrjánum og sýndu niðurstöðurnar að skóginum var grandað fyrir um 1200 árum síðan, á tímabilinu frá 755 til 830 e. Kr. Nú í vetur voru gerðar mjög nákvæmar rannsóknir, s.k. C-14 aldursgreiningar á lurkunum þar sem hver einasti árhringur var aldursgreindur með geislakoli við ETH háskólann í Zurich.

Ólafur Eggertsson, sérfræðingur Skógræktar ríkisins á sviði fornvistfræði, greindi frá því í dag að niðurstöður þessara greininga sýni að árhringurinn næst berki í fornbirkinu myndaðist sumarið 822 e.Kr.

Jökulhlaupið sem grandaði skóginum dagsett

„Þessi nákvæma aldursgreining byggir á því að árin 774 og 775 e.Kr. urðu mjög miklar breytingar á geislakoli í andrúmslofti og er þessi atburður „skráður“ í árhringjum forntrjánna í Drumbabót,“ segir í pistli Ólafs á síðu Skógræktar ríkisins.

Hlaupið sem grandað skóginum á Markarfljótsaurum átti sér því stað veturinn 822-23 e.Kr., mjög líklega vegna eldgoss í Kötlu. „Hér er því komin „dagsetning“ á síðasta hamfaragosi í Kötlu sem fór í vestur og yfir Markarfljótsaura,“ segir Ólafur.

Þetta er nákvæmasta aldursgreining sem framkvæmd hefur verið með geislakolsaðferð á einstökum atburði á Íslandi.

Árhringir trjástofna geta sagt mikla sögu. Síðasti hringur birkitrjánna í …
Árhringir trjástofna geta sagt mikla sögu. Síðasti hringur birkitrjánna í Drumbabót myndaðist sumarið 822 e. Kr. Ljósmynd/Hrafn Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert