„Það sá varla á milli húsa“

Veturinn er ekki alveg búinn að syngja sitt síðasta en í morgun snjóaði talsvert á Siglufirði. Börn tóku ofankomunni vel en bæjaryfirvöld bölva henni eflaust enda snjóruðningur kostnaðarsamur. Hretið getur einnig haft áhrif á varp fugla og segir fuglafræðingur að það geti brugðið til beggja vona.

Sigurður Ægisson, fréttaritari mbl.is á Siglufirði, segir að um níuleytið í morgun hafi farið að snjóa hressilega og féll snjór yfir bæjarbúa fram yfir hádegi. „Það sá varla á milli húsa á tímabili,“ segir Sigurður en hann tekur fram að það hafi verið hæglætisveður í bænum.

„Þetta er töluvert sem hefur komið af snjó niður núna á nokkrum klukkutímum,“ bætir Sigurður við. Hann segir ennfremur að þetta sé óvenju snjóþungur maí. „Þetta er einhver bakki sem er að fara hérna yfir.“

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands má búast við umskiptum í veðri á morgun.

Hretið getur haft áhrif á varp fugla

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að það geti brugðið til beggja vona með varp fugla á svæðinu. Það hafi að vísu oft gerst að það hafi verið snjóþungt á þessum árstíma.

Hann segir að nú séu farfuglar að tínast inn til landsins. „Fuglar sem lifa á skordýrum eiga mjög erfitt uppdráttar ef þeir lenda þetta norðarlega. Þannig að þetta getur brugðið til beggja vona, enn sem komið er,“ segir Kristinn.

„Það hefur gerst svo oft áður að það hefur vorað illa þarna og svo hafi ræst úr því. Það er fullsnemmt að kveða upp úr með það hvernig þetta komi til með að verða,“ segir Kristinn.

„Þrátt fyrir þetta snjóþunga vor þá er ekki enn útséð hvernig varpfuglum kemur til með að reiða af því langfæstir þeirra eru byrjaðir að verpa. Það eru næstu tvær til þrjár vikur sem skera raunverulega úr um hvað kemur til með að gerast,“ segir Kristinn.

Hann bætir því við að hret í júní séu mun verri heldur en hret í maí, en þá séu fuglar berskjaldaðri og komnir á hreiður.

Í byrjun júní hyggst Náttúrufræðistofnun Íslands gera ítarlega úttekt á stöðu varpfugla á Norðurlandi og þá mun staða mála væntanlega skýrast varðandi varpið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert