Undirbúa verðandi foreldra

Sýnt hefur verið fram á að með tilkomu fyrsta barns getur ágreiningur foreldra allt að áttfaldast en verðandi foreldrum býðst nú að fara á ókeypis námskeið sem býr þá undir breytingar og álagið sem fylgir foreldrahlutverkinu. 

Á meðal þess sem fjallað er um á námsskeiðinu er ágreiningur foreldra og heilbrigð úrlausn á honum en aðaláherslan er lögð á að styrkja parið sem er að fara að takast á við foreldrahlutverkið og því er lögð áhersla á að fá unga verðandi foreldra til að sitja námskeiðið. Þá er fjallað um grundvallaratriði í þroska barna á fyrstu þremur árunum.

Námskeiðið er samstarfsverkefni Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd, Gottman á Íslandi og Velferðarsjóðs barna en leiðbeinendur eru þau Hera Ó. Einarsdóttir, félagsráðgjafi, Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskyldu- og hjónaráðgjafi og Valgerður Snæland Jónsdóttir fv. sérkennslufulltrúi og skólastjóri. 

Ólafur Grétar segir að samfélagslegur ávinningur af fræðslu foreldra hafi lengi legið fyrir en erfitt sé að fá fólk til þess að festa fé sitt í slíkri fræðslu og því sé lykilatriði að slík námskeið séu ókeypis. Algeng orsök fyrir fæðingarþunglyndi sé hugmynd fólks um að kunnáttan og hæfileikinn til að annast barn eigi að vera meðfæddur og því þurfi að gefa fólki raunhæfa mynd af því hvernig líf þess muni breytast með foreldrahlutverkinu.

Námskeiðið verður haldið 25-26 maí en hægt er að fá frekari upplýsingar og skrá sig á hjá rbf@hi.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert