Málshöfðun hefði ekki komið til

Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson ásamt verjendum og aðstoðarmönnum.
Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson ásamt verjendum og aðstoðarmönnum. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara á hendur Lýð Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni lýkur á morgun með málflutningsræðum saksóknara og verjenda. Því er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg, þ.e. undanfarna tvo daga aðalmeðferðarinnar.

Fyrir það fyrsta þá er Lýður ákærður fyrir að hafa, sem stjórnarmaður einkahlutafélagsins BBR brotið vísvitandi gegn lögum um hlutafélög um greiðslu hlutafjár með því að greiða Exista minna en nafnverð fyrir 50 milljarða nýrra hluta í Exista, að nafnvirði 50 milljarða króna, sem BBR keypti og greiddi fyrir með 1 milljarði hluta í einkahlutafélaginu Kvakki, sem metnir voru á 1 milljarð króna. Á sama tíma var Lýður starfandi stjórnarformaður Exista.

Það telst brot gegn 1. mgr. 16. gr. laga um hlutafélög þar sem segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnvirði.

Lýður og Bjarnfreður eru svo ákærðir fyrir að skýra vísvitandi rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista með því að Bjarnfreður sendi, að undirlagi Lýðs, tilkynningu til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra þar sem kom fram að hlutafé Exista hefði verið að fullu greitt, þótt einungis hafi verið greitt fyrir hlutaféð með 1 milljarði hluta í Kvakki.

Sigurður sagðist hugmyndasmiðurinn

Við skýrslutökur í málinu fyrir dómi hefur Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, spurt stjórnarmenn, forstjóra og fjármálastjóra Exista út í veðkall Nýja Kaupþings vegna láns félagsins Bakkabræður Holding, en það hélt á 45% hlut í Exista. Félagið var í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona og fór bankinn fram á greiðslu inn á lánið eða frekari tryggingar, en að öðrum kosti myndi bankinn leysa til sín hlutabréf Exista.

Tölvubréf þess efnis var sent út 3. desember 2008 og ætlaði bankann að leysa til sín bréfin ef ekki yrði brugðist við veðkallinu fyrir 8. desember.

Sérstakur spurði út stjórnendur Exista út í vitneskju þeirra um þetta veðkall, en daginn eftir, eða 4. desember 2008, samþykkti stjórn Exista að auka hlutafé félagsins um 50 milljarða króna að nafnvirði.

Enginn aðspurðra kannaðist við veðkallið og lét sérstakur saksóknari í veðri vaka að þarna væri komin augljós tenging. Einnig er komið inn á sömu tengingu í ákæruskjali.

Verjandi Lýðs vísaði hins vegar til fundargerðar stjórnarfundar frá 27. nóvember, sem sérstakur saksóknari vísaði aldrei í, en í henni kom fram að hlutafjáraukningin var til umræðu á fundinum og í raun að Ágúst og Lýður ætluðu að leggja til 1 milljarð persónulega.

Auk þess sagði Sigurður Valtýsson, annar fyrrverandi forstjóra Exista, að hugmyndin að þeirri leið sem farin var hafi verið sín. Hann hafi stungið upp á því að greitt væri fyrir 50 milljarða hluti í Exista með 1 milljarða hluta í Kvakki.

Sjálfur bar Lýður því við að hann aðeins verið kaupandi að þessu hlutafé og greitt fyrir það sanngjarnt verð. Það verð hafi löggiltur endurskoðandi staðfest. Hann hafi í raun engin afskipti haft að undirbúningi þessara viðskipta af hálfu Exista, hann hafi verið í höndum sérfræðinga.

Sigurður Valtýsson sagði einnig að þetta hefði verið eina leiðin sem var fær til að koma réttmætum verðmætum á milli aðila. Hann sagðist hafa rætt þetta við stjórnendateymi Exista og svo hafi undirbúningur viðskiptanna öðlast sjálfstætt líf hjá sérfræðingum.

Töldu að um lögmæt viðskipti væri að ræða

Allir stjórnendur Exista sem komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu sögðust ekki hafa talið annað en að um lögmæt viðskipti hafi verið að ræða. Að fyrir lægi lögfræðiálit og sérfræðiskýrsla endurskoðenda sem staðfestu lögmætið. Þeir höfðu hins vegar ekki heyrt um efasemdir lögmanna Logos, en Logos taldi sig ekki geta gefið út lögfræðiálit vegna þeirra.

Þá eru áhöld um þátt Deloitte en þó ljóst að löggiltur endurskoðandi fyrirtækisins sendi frá sér skýrslu um verðmat á Exista og Kvakki. Í henni kom fram að Exista væri verðlaust félag og Kvakkur metinn á 1 milljarð.

Útlit skýrslunnar bar það með sér að vera sérfræðiskýrsla í skilningi hlutafélagalaga. Forstjóri Deloitte og endurskoðandinn sem vann skýrsluna segja hana hafa verið setta upp í staðlað form en texti skýrslunnar sé skýr, að þetta sé ekki sérfræðiskýrsla um hlutafjárhækkun Exista og staðfesti hana ekki.

Bjarnfreður sagði fyrir dómi að fulltrúar Deloitte hafi tjáð sér að skýrslan yrði rúmt orðuð og því óhefðbundin. Reyna ætti á túlkun á 16. gr. hlutafélagalaga og athuga hvort hlutafjárhækkunin yrði afgreidd hjá fyrirtækjaskrá.

Bjarnfreður fékk skýrsluna senda með tölvupósti og sendi hana áfram til fyrirtækjaskrár ásamt tilkynningu um hlutafjárhækkunina.

Engin athugasemd var gerð við tilkynninguna og var hlutafjárhækkunin skráð samdægurs.

Ófaglærður starfsmaður skráði hækkunina

Hálfu ári síðar afturkallaði fyrirtækjaskrá tilkynninguna vegna þess að hún þótti ekki lögmæt. Þá hafði blaðamaður Morgunblaðsins hringt í fyrirtækjaskrá vegna tilkynningarinnar og spurt út í hana. Samkvæmt heimildum mbl.is kom mikið fát á forstöðumann fyrirtækjaskrár þegar hann fletti upp tilkynningunni.

Skúli Magnússon, forstöðumaður fyrirtækjaskrár, kom fyrir dóminn í dag og sagði meðal annars þetta: „Sérfræðingur var ekki á staðnum og þess vegna var starfsmaður með reynslu, að vísu ekki í þessum málum, að lesa yfir. Allt yfirbragð benti til þess að þetta væri traust tilkynning. Það voru stórar og virtar stofur sem stóðu að þessu.“

Hann sagði einnig að skýrslan frá Deloitte hefði borið með sér að vera sérfræðiskýrsla og þegar ófaglærður starfsmaður hafi farið yfir hana hafi hann talið svo vera. Hefði hins vegar sérfræðingur verið á vakt hefði sá um leið séð hvers eðlis var og hafnað tilkynningunni. „Þessu hefði verið hafnað og kostur gefinn á leiðrétta gögnin. Sá sem sendi tilkynningu hefði þurft að koma með rétt gögn,“ sagði Skúli.

Af þessu má ráða að aldrei hefði komið upp þetta sakamál ef sérfræðingur hefði verið á vakt hjá fyrirtækjaskrá. Skúli var spurður út í vinnulag hjá fyrirtækjaskrá þegar kemur að tilkynningum sem þessum og hvað starfsmenn eiga að gera: „Þeir eiga að lesa yfir og ganga úr skugga um að þær uppfylli lög. [...] Það var ekki löglærður maður sem fór yfir þessi gögn og hafði því ekki þá faglegu þekkingu.“

Þá sagði Skúli að ekki virtist bera á öðru en að reynt hafi þarna verið að blekkja fyrirtækjaskrá vísvitandi. Og að ábyrgðin á því að senda rangar tilkynningar liggi hjá þeim sem sendi þær.

Fulltrúar Exista funduðu með fulltrúum fyrirtækjaskrár og reyndu að malda í móinn. Sögðu ekkert óeðlilegt við tilkynninguna. Sigurður Valtýsson var á fundinum og lýsti honum svona: „Það sem kom fram var mjög vanstillt viðhorf starfsmanna fyrirtækjaskrár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins fundi. Þeir töldu sig hafa verið blekkta og ætluðu að afturkalla tilkynninguna.“

Fyrirtækjaskrá afturkallaði tilkynninguna og kærði málið til sérstaks saksóknara.

Taka ekki ábyrgð á orðum annarra sérfræðinga

Bjarnfreður er ákærður fyrir að senda inn umrædda tilkynningu. Hann lýsti því fyrir dóminum að það hefðu verið efasemdir hjá Logos, þar sem hann er meðeigandi, um þessi viðskipti Exista og BBR. Hins vegar hafi það verið ákvörðun Exista að reyna á rúma túlkun á 16. greininni og sagðist hann hafa talið að sú ákvörðun fengi stoð í sérfræðiskýrslu Deloitte. „Maður ætlar ekki annað þegar hlutafé er hækkað um 50 milljarða að það byggist á mati sérfræðinga, og að opinberir starfsmenn [fyrirtækjaskrár] sinni sinni lagaskyldu og lesi matið.“

Fleiri lögmenn hjá Logos gáfu skýrslu, bæði núverandi og fyrrverandi. Þeir sögðu skýrt að Logos hefði ekki staðfest umrædda hlutafjárhækkun eða nokkuð annað gert en að senda tilkynningu sem hafi verið rétt út frá fyrirliggjandi gögnum. „Ábyrgð er ekki tekin á því hvað stendur í skýrslum annarra sérfræðinga,“ sagði Pétur Guðmundsson, sem var lögmaður hjá Logos í desember 2008, og kom lauslega að málinu innanhúss sem ráðgjafi.

Aðrir lögmenn sögðu engan vafa hafa leikið á því að skýrsla Deloitte hafi verið sérfræðiskýrsla samkvæmt lögum. Það hafi engu að síður komið þeim á óvart að fyrirtækjaskrá hafi skráð hlutafjárhækkunina án nokkurra athugasemda.

Engin viðbrögð við athugasemdum Kaupþings

Stjórnendur Exista sem komu fyrir dóminn sögðu allir að staða félagsins á þessum tíma hafi verið óljós og erfið. Viðræður við kröfuhafa stóðu yfir og að þeir hafi meðal annars farið fram á að aðaleigendur Exista sýndu í verki stuðning við félagið með því að leggja því til fjármuni. Enginn hafi hins vegar verið til í að taka þátt í hlutafjáraukningunni, þrátt fyrir að vera boðið að koma inn á sömu kjörum og Lýður og Ágúst.

Fyrrverandi fjármálastjóri Exista sagði að hlutafjáraukningin hefði skipt miklu máli í viðræðunum við kröfuhafa. Og allir voru stjórnendur sammála um að í engu hefði verið reynt að leyna því að einn milljarður króna hafði komið inn í félagið í skiptum fyrir 50 milljarða hluta í Exista.

Fyrrverandi yfirmaður á lögfræðisviði Kaupþings, Helgi Sigurðsson, staðfesti það að engin leynd hefði ríkt yfir viðskiptunum. „Við gagnrýndum einfaldlega að nýtt væri heimild í andstöðu við stóran kröfuhafa í félaginu og að það væri verið að þynna út hlutaféð. Við vissum alveg hvað stóð til, en við vorum ekki sáttir við það.“

Helgi sagði að Kaupþing hefði haft samband við Kauphöllina og fyrirtækjaskrá vegna málsins og gert athugasemdir. „Það voru engin sérstök viðbrögð og þeim fannst þetta ekkert athugavert,“ sagði Helgi um viðbrögð Kauphallarinnar.

Finnur Sveinbjörnsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, staðfesti að einnig hefði verið haft samband við fyrirtækjaskrá vegna málsins. Þessu hafnaði hins vegar forstöðumaður fyrirtækjaskrár.

Niðurstaða fyrir sumarleyfi

Vitnaleiðslum lauk eins og fyrr segir í dag og á morgun verður málið dómtekið eftir að saksóknari og verjendur hafa flutt málflutningsræður. Búast má við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir sumarleyfi dómsins.

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari ásamt aðstoðarfólki.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari ásamt aðstoðarfólki. mbl.is/Árni Sæberg
Sigurður Valtýsson og Lýður Guðmundsson.
Sigurður Valtýsson og Lýður Guðmundsson. mbl.is/Kristinn
Bjarnfreður Ólafsson.
Bjarnfreður Ólafsson. Morgunblaðið/Rósa Braga
Ólafur Þór Hauksson ásamt aðstoðarfólki sínu.
Ólafur Þór Hauksson ásamt aðstoðarfólki sínu. Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gestur Jónsson, Lýður Guðmundsson og Almar Möller.
Gestur Jónsson, Lýður Guðmundsson og Almar Möller. Morgunblaðið/Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert