Stakir frídagar verði fluttir til

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir því á fundi borgarstjórnar í dag að reynt verði að ná samkomulagi við stéttarfélögin um að færa til staka frídaga í miðri viku þannig að úr verði löng þriggja daga fríhelgi.

Að sögn Kjartans er ekki verið að leggja til tilflutning allra slíkra daga heldur að menn komi sér saman um að færa 1-2 daga í byrjun og meti síðan framhaldið í ljósi reynslunnar. Var tillögunni vísað til borgarráðs.

 Borgarstjórn felur kjaradeild að leita eftir því við Starfsmannafélag Reykjavikurborgar, Eflingu og aðra viðsemjendur borgarinnar að heimildarákvæði verði sett í kjarasamninga, er heimili tilflutning á stökum frídögum launafólks að vori, þannig að úr verði samfellt helgarleyfi,“ segir í tillögu Sjálfstæðisflokksins.

Greinargerð með tillögunni:

Í lögum og kjarasamningum eru ákvæði um almenna frídaga og eru nokkrir þeirra síðla vetrar eða snemma vors. Forsvarsmenn samtaka launafólks og vinnuveitenda hafa bent á að það valdi óþægindum og minni framleiðni að slíta vinnuvikur í sundur með því að hafa stakan vinnudag á eftir stökum frídegi. Margt launafólk myndi án efa kjósa að flytja til staka frídaga inni í miðri viku þannig að úr yrði þriggja daga löng helgi ef það ætti þess kost. Slíkt fyrirkomulag hefur rutt sér til rúms á Bretlandi og víðar með góðum árangri og við almenna ánægju launafólks og atvinnurekenda.

Fyrir nokkrum árum var það heimildarákvæði sett inn í kjarasamninga á almennum vinnumarkaði að semja mætti um að samningsbundið frí á fimmtudögum, verði fært yfir á föstudag eða mánudag. Um þetta þarf að semja á hverjum vinnustað fyrir sig og ef til vill er það ástæða þess að hugmyndin hefur ekki komst í almenna framkvæmd.

Reykjavíkurborg er annar stærsti vinnuveitandi landsins og því vel til þess fallin að setja málið á dagskrá. Ljóst er að slíkar breytingar verða þó ekki gerðar nema í góðu samkomulagi borgarinnar og viðkomandi stéttarfélaga. Rétt þykir því að kanna hug helstu viðsemjenda til málsins. Nái borgin og viðsemjendur hennar samkomulagi um tilfærslu slíkra daga má búast við því að flestir aðilar vinnumarkaðarins myndu fylgja í kjölfarið.

Nú er það svo að þessir stöku frídagar eru flestir síðari hluta vetrar eða að vori þegar allra veðra að von. Vel kemur því til greina að færa einhverja frídaga yfir á hið stutta íslenska sumar og búa þannig til fleiri langar fríhelgar. Einn frídaginn mætti t.d. hafa fyrsta mánudag í júlí. Jafnvel mætti bæta tveimur frídögum við einhverja helgi og búa þannig til fjögurra daga samfellt leyfi.

 Í upphafi mætti semja um tilfærslu 1-2 slíkra frídaga og meta ávinninginn síðan í ljósi reynslunnar. Óhætt er að fullyrða að fjölgun langra fríhelga á hinu stutta íslenska sumri, yrði launafólki almennt sem og atvinnurekendum til ánægju og yndisauka.

Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon Gúndi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert