Vissi að þær voru í öruggum höndum

„Ég gerði mér strax grein fyrir því að fyrst ég þyrfti að fæða fyrirbura, þá væri ég á besta stað í heiminum til þess.“ Þetta segir Katrín Aðalsteinsdóttir, sem eignaðist tvíbura í janúar eftir aðeins 25 vikna meðgöngu. Stúlkurnar braggast vel en þurftu að liggja lengi á vökudeild auk þess sem fylgst verður náið með þeim fyrstu tvö ár ævinnar.

Ísland er í fjórða sæti í nýrri skýrslu Barnaheilla - Save the Children, um stöðu mæðra í heiminum. Í ár er staða barna og mæðra þeirra fyrsta sólarhringinn eftir fæðingu sérstaklega til skoðunar.

Dætur Katrínar geta sennilega þakkað líf sitt því að þær fæddust á Íslandi en Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir að víða þurfi lítið til að bæta lífslíkur ungbarna. Það sé fjarri því óraunhæft verkefni að draga verulega úr barnadauða í heiminum.

Á vökudeild fyrstu 100 daga ævinnar

„Þetta var mjög erfið upplifun og erfiðast er að skilja barnið sitt eftir yfir nótt,“ segir Katrín um tímann sem liðinn er frá fæðingu dætra hennar, Þóru Margrétar og Halldóru Gyðu.

Katrín missti vatnið þegar hún var gengin aðeins 24 vikur með tvíburana. Hún var strax lögð inn og viku síðar, þann 6. janúar, komu stúlkurnar í heiminn. „Þær voru settar beint inn á vökudeild og voru þar í einhverja 100 daga. Við fórum fyrst heim með þær síðasta laugardag en vorum bara heima í fjóra daga, þá þurftum við að fara aftur á spítalann og komum svo heim í gær,“ segir Katrín.

Eðlileg meðganga er 40 vikur (+/-2 vikur). Fjölburar eru líklegri til að fæðast fyrir tímann og með litla fæðingarþyngd, en eftir 25 vikna meðgöngu eru fóstur aðeins um 750 gr og um 22 cm. Komi til fæðingar getur barnið lifað af utan móðurkviðar á því þroskastigi, en aðeins með hjálp mjög sérhæfðrar meðferðar á nýburagjörgæslu í margar vikur. 

Vissi að þær voru í öruggum höndum

„Það þarf að fylgjast með bókstaflega öllu,“ segir Katrín og útskýrir að á nýburagæslunni hafi verið gætt að því hvort tvíburarnir nærðust og önduðu og hvort blóðrásin og önnur líkamsstarfsemi væri rétt. Hún segir það hafa skipt miklu að hafa fullvissu um það að bæði hún og börnin væru í öruggum höndum þegar þau komu í heiminn. „Vökudeildin á Íslandi er ein af þeim bestu.“

Systurnar eru nú fjögurra mánaða og braggast vel en þær eru enn undir stífu eftirliti. Þegar önnur þeirra fékk sýkingu og hita stuttu eftir að þær fengu fyrst að fara heim voru þær samstundis lagðar inn aftur. 

„Ég fer tvisvar í viku með þær upp á barnaspítala og það er fylgst mjög vel með bæði þroska og heilsu og verður þannig fyrstu tvö árin. Það kemur ekkert í ljós varðandi taugaþroska og andlegan þroska fyrr en þær eru orðnar aðeins eldri, en eins og staðan er núna ættu þær að ná sér alveg.“

Himinn og haf milli Íslands og Kongó

Ekki eru allar nýbakaðar mæður jafnheppnar og Katrín eða aðrar konur á Íslandi. Eina landið utan Evrópu sem kemst í efstu 10 sæti lista Barnaheilla um stöðu mæðra í heiminum er Ástralía. Afríkulönd sunnan Sahara koma verst út og situr Kongó í 176. og neðsta sæti listans, því hvergi í heiminum er verra að verða móðir en þar.

Mælikvarðarnir sem skýrslan byggir á eru lífslíkur mæðra og barna, menntun, innkoma og jafnrétti kynjanna. Erna Reynisdóttir segir að einhverjir kunni kannski að spyrja hvers vegna Barnaheill geri úttekt á mæðrum, en ekki bara börnunum sjálfum?

Staða kvenna hefur mikið að segja um líðan barna

„Málið er einfaldlega að það eru ofboðslega sterk tengsl milli stöðu mæðra í heiminum, líðan þeirra og umhverfi, og þess hvernig börum þeirra vegnar. Heilbrigðisþjónustan vegur auðvitað þyngst, en það er margt annað sem spilar inn í barnadauða, eins og menntun kvenna og jafnrétti.“

Með aukinni menntun og jafnrétti kynjanna má m.a. draga úr líkum á því að börn eignist fleiri börn en þær kæra sig um og ráða við, segir Erna. Hún bendir á að ekki séu nema örfáar kynslóðir síðan sú staða var uppi á Íslandi að eðlilegt þótti að konur eignuðust jafnvel 10 börn og þar af kæmust 7 til manns.

„Það var þegar við bjuggum við þessar sömu aðstæður, fátækt og litla menntun. Þetta eru sögur sem ömmur okkar og afa geta sagt.“

Öll börn eiga jafnan rétt til lífs

Erna segir að lítið sé í til fyrirstöðu að sama þróun eigi sér stað annars staðar. Það sé hvergi nærri óraunhæft að draga verulega úr barnadauða í heiminum. Þrjár milljónir barna deyja árlega áður en þau ná 3ja mánaða aldri. Með einföldum og ódýrum aðferðum væri hægt að fækka þessum dauðsföllum um 75%.

„Það er svo merkilegt að oft eru þetta litlir og ódýrir hlutir sem vega þyngst. Eins og til dæmis bara sótthreinsun á naflastrengnum, sýklalyf, litlar grímur sem má nota til að örva lungun. Allt kostar þetta krónur og aura en getur komið í veg fyrir að nýfædd börn deyi fyrsta sólarhringinn.“

Erna segir að alþjóðasamfélagið þurfi að taka saman höndum um að efla heilbrigðiskerfið í þróunarlöndunum. „Hvert og eitt barn á jafnmikinn rétt til lífs, hvar sem það kemur í heiminn. Af hverjum ættum við að fórna barninu sem fæðist í Kongó, frekar en barninu sem fæðist á Íslandi? Eigum við ekki að hjálpast að við að koma öllum börnum á legg?“
 

Skýrsla Barnaheilla - Save the Children

Á kongóskri fæðingadeild í nágrenni Kinshasa.
Á kongóskri fæðingadeild í nágrenni Kinshasa. AFP
Katrín Aðalsteinsdóttir á vökudeild Landspítalans með tvíburadætur sínar, þær Halldóru …
Katrín Aðalsteinsdóttir á vökudeild Landspítalans með tvíburadætur sínar, þær Halldóru Gyðu og Þóru Margréti.
Þessi agnarlitla stúlka fæddist á 26. viku og hefur verið …
Þessi agnarlitla stúlka fæddist á 26. viku og hefur verið í súrefniskassa frá fæðingu. Með henni er Margrét O. Thorlacius hjúkrunardeildarforstjóri nýburagæslu á Barnaspítala Hringsins.
Fyrirburi á Vökudeild barnaspítala Hringsins
Fyrirburi á Vökudeild barnaspítala Hringsins mbl.is/Golli
Hvergi í heiminum er verra að verða móðir en í …
Hvergi í heiminum er verra að verða móðir en í Kongó.Á hverju ári látast 287 þúsund mæður af barnsförum eða á meðgöngu og 6,9 milljónir barna deyja áður en þau ná 5 ára aldri. AFP
Nýfætt barn sefur á vökudeild sjúkrahúss í Binza í Kongó. …
Nýfætt barn sefur á vökudeild sjúkrahúss í Binza í Kongó. Fæstar mæður þar í landi eru svo heppnar að hafa aðgang að þess háttar heilbrigðisþjónustu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert