Fer fram á 18 mánaða fangelsi

Gestur Jónsson, Lýður Guðmundsson og Almar Möller.
Gestur Jónsson, Lýður Guðmundsson og Almar Möller. Morgunblaðið/Rósa Braga

Sérstakur saksóknari fer fram á 18 mánaða fangelsi yfir Lýð Guðmundssyni, sem oftast er kenndur við Bakkavör, fyrir brot gegn hlutafélagalögum. Hann sagði brot Lýðs alvarlegt og í raun ekki hægt að brjóta gegn hlutafélagalögum með alvarlegri hætti. Refsiramminn er tvö ár.

Í málflutningsræðu sinni sagði sérstakur saksóknari að Lýður hefði sem stjórnarformaður Exista blekkt stjórn félagsins og fyrirtækjaskrá. Aðgerðir hans höfðu ekki þann tilgang að bæta hag Exista heldur tryggja yfirráð sín í félaginu, félagi sem hann var að missa og átti ekki lögmætt tilkall til. Hann hafi með því að hækka hlutafé og greiða ekki nema brot af því rýrt hlutafé félagsins með stóralvarlegum hætti. 

Þá sagði hann að þó svo ekki hafi verið leynd yfir hinum ólögmætu viðskiptum sé það ekki efnisatriði í málinu heldur sýni fyrst og fremst hversu ósvífið brotið var. Lýður hafi séð fram á að missa tök á félaginu og ekki haft tíma til að fara lögmæta leið. Hann hafi því ákveðið að fara hina ólögmætu leið og hækka hlutaféð að nafninu til.

Bjarnfreður Ólafsson lögmaður er einnig ákærður í málinu og fer sérstakur saksóknari fram á 6-8 mánaða fangelsi yfir honum fyrir að senda ranga og villandi tilkynningu til fyrirtækjaskrár. Einnig fer saksóknari fram á að hann verði sviptur lögmannsréttindum.

Aðalmeðferðin heldur áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert