Jólin komu hjá stjórn Exista

Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Frá Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Gestur Jónsson, verjandi Lýðs Guðmundssonar, sagði í ræðu sinni að jólin hafi komið hjá stjórn Exista þegar sérstakur saksóknari gaf út ákæru vegna viðskipta í tengslum við hlutafjárhækkun Exista í desember 2008, enda hafi þeir sem tóku ákvörðunina sem talin er ólögmæt ekki verið ákærðir. Hann sagði kristaltært að ekki sé hægt að ákæra Lýð sem kaupanda bréfanna og því beri að sýkna hann.

Í ræðu sinni fór Gestur yfir rannsókn sérstaks saksóknara á hlutafjáraukningunni og sagði að unnið hefði verið út frá því að stjórn Exista hefði verið óheimilt að láta af hendi nýtt hlutafé í Exista án þess að það kæmi að minnsta kosti jafnvirði nafnverðs í peningum eða ígildi þeirra. „En skjólstæðingur minn er ákærður sem stjórnarmaður í einkahlutafélaginu BBR fyrir að hafa keypt þessa hluti á því verði sem stjórn Exista tók ákvörðun um.“

Ákvörðun hafi verið tekin um að ákæra þá ekki sem tóku hina ólögmætu ákvörðun heldur að ákæra kaupanda bréfanna. Gestur sagði að spurningar gætu vaknað upp um hlutdeild kaupenda bréfanna í verknaði seljenda þegar selt er undir virði. En þar sem stjórn Exista var ekki ákærð sé því ekki til að dreifa í þessu máli. Hann sagði að hugsanleg ábyrgð Lýðs sé að öllu leyti bundin við athafnir hans sem stjórnarmanns BBR, enda sé þannig komist að orði í ákæru. 

Af þeim sökum sagði Gestur að málflutningsræða sérstaks saksóknara hefði komið á óvart. Lýður sé ákærður fyrir kaupin á hlutabréfunum en saksóknari hafi flutt málið eins og hann væri ákærður fyrir að selja bréfin. Þannig hafi flest það sem saksóknari sagt ekki komið ákærunni við. 

Þá fór Gestur yfir sambærilegt lagaákvæði í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og sagði að þau væru öll á þá leið að ekki væri hægt að ákæra þriðja mann, kaupanda bréfanna, sem væri ekki stjórnarmaður eða hefði með söluna að gera. 

Í því sambandi tók Gestur fram, að þó svo Lýður hafi verið starfandi stjórnarformaður þá hafi hann vikið sæti þegar kom að þessum viðskiptum. „Í þessu máli er ekki deilt um það, eða ég hélt það, að ákærði Lýður vék sæti í þessu tilviki og tók ekki ákvörðun í stjórn um hlutafjárhækkunina. Aðild hans er því aðeins bundin við stöðu hans hjá BBR. Niðurstaðan getur aðeins verið ein, því meginhlutverk stjórnar er að gæta hagsmuna hluthafa og lánardrottna. Aðilar utan félagsins geta ekki sinnt því hlutverki.“

Hann sagði að skyldan til að fara að lögum við sölu hlutafés í Exista hafi hvílt á þeim sem komu fram fyrir hönd félagsins, ekki öðrum. „Ég hefði reiknað með því að spurningar saksóknara litu að samningi Exista og BBR og að ákæruefninu. Ég hefði talið að samningurinn væri kjarni málsins,“ sagði Gestur og að saksóknari hefði ekki sýnt neina viðleitni til að reyna sanna að Lýður hafi brotið vísvitandi gegn hlutafélaga lögum. „Saksóknari spurði ekkert út í þetta heldur aðeins um ákvörðun stjórnar Exista um hlutafjárhækkunina.“

Vörnin í málinu.
Vörnin í málinu. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert