Reykjavík verði aldursvæn borg

Aðgengileg, aðlaðandi og hentug borg fyrir eldri borgara er aldursvæn …
Aðgengileg, aðlaðandi og hentug borg fyrir eldri borgara er aldursvæn borg að sögn borgaryfirvalda. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Reykjavík vill vera aldursvæn borg sem tekur mið af þörfum eldri borgara. Þetta kemur fram í stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum aldraðra til ársins 2017, en borgarstjórn samþykkti hana einróma á fundi sínum í gær.

„Þjónusta við eldri borgara hefur verið á höndum bæði ríkis og sveitarfélaga. Á næstu árum er stefnt að því að sveitarfélög taki við allri þjónustu. Í ljósi þessa vilja borgaryfirvöld setja fram stefnu í málefnum eldri borgara. Hún er unnin í nánu samstarfi við hagsmunasamtök eldri borgara og sérfræðinga í öldrunarþjónustu,“ segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

„Þessi stefna lýsir framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á það hvernig mæta megi þörfum eldri borgara og um leið hvernig samfélaginu getur nýst sem best sá auður sem aldraðir búa yfir. Það er vel við hæfi að birta stefnuna í dag því á morgun er dagur aldraðra,“ segir ennfremur.

Í stefnunni segir m.a. að það sé mikilvægt að þjónusta sé þannig uppbyggð að starfsfólk í heimaþjónustu sem og á stofnunum leggi sig fram um að virkja frumkvæði og að fá fram vilja þeirra sem þjónustunnar njóta. Þannig verði þjónustan veitt á forsendum þess sem hana þiggi.

Til lengri tíma sé lagt til að horfið verði frá því að aðgreina fólk og þjónustu við það eftir aldri, sjúkdómum, fötlun eða öðrum skilmerkjum, heldur eigi þjónusta og stuðningur að taka mið af þörfum hvers og eins. Mikil áhersla sé lögð á samráð við eldri borgara og fagfólk í öldrunarþjónustu þegar mótuð sé stefna í málefnum eldri borgara. Jafnframt sé tekið mið af niðurstöðum rannsókna í málaflokknum.

„Þjónusta við eldri borgara í Reykjavík skal vera af miklum gæðum og eiga þau gæði að birtast í allri þjónustu sem boðið er upp á. Þegar talað er um gæði er átt við að þjónusta skuli uppfylla fyrirfram gefin gæðaviðmið, að ákvarðanataka um þjónustuna sé gagnsæ og jafnræðis sé gætt. Lögð er áhersla á áreiðanleika og öryggi,“ segir í stefnunni.

„Stefnt er að því að lífskjarakannanir meðal eldra fólks verði gerðar reglubundið en þannig má draga upp heildarmynd af breytingum. Mikilvægt er að gera samanburðarhæfar rannsóknir að lágmarki á 4 ára fresti,“ segir ennfremur.

Nánar um stefnuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert