„Fyrsti útlendingurinn“ í lögreglunni

Aleksandra Wójtowicz.
Aleksandra Wójtowicz.

„Það er talað um að ég sé fyrsti útlendingurinn sem ráðinn er til starfa hjá lögreglunni því ég kom hingað til lands eftir að ég varð átján ára,“ segir Aleksandra Wójtowicz, sem nýlega var skipuð var í stöðu lögreglufulltrúa við alþjóðadeild embættis ríkislögreglustjóra.

Alexandra er Íslendingur af pólskum uppruna og kom hingað til lands árið 1996 þegar hún var 18 ára gömul frá Gdansk í Póllandi. Hún hefur því starfað og búið á Íslandi samfleytt í 17 ár. Hún á íslenskan eiginmann og þrjú börn. Hér á landi hefur hún búið í Hrísey, á Djúpavogi og á Eskifirði. „Ég kom hingað til lands sem au-pair hjá pólsku fólki,“ segir Aleksandra. 

Uppfyllir gamlan draum

Hún segir að hana hafi ekki órað fyrir því við komuna að hún myndi ílengjast hér á landi eins lengi og raun ber vitni. Upphaflega ætlaði hún að koma til Íslands til þess vinna sér inn pening en fara svo í frekara nám. „En svo kynntist ég manninum mínum á Djúpavogi og varð bara eftir. Segja má að ég sé að uppfylla gamlan draum með því að gerast lögreglumaður,“ segir Aleksandra.

Hún hefur unnið í frystihúsi, á leikskóla, við uppbyggingu á álverinu á Reyðarfirði og sem túlkur. Hún á skyldmenni á Íslandi en segir að hún hafi ekki verið í miklum samskiptum við Pólverja fyrr en Schengen samningurinn opnaði fyrir komu Pólverja til Íslands árið 2008. 

Unnið hjá lögreglunni í fimm ár

Aleksandra er lærður sjúkraflutningamaður og starfaði við sjúkraflutninga áður en leiðin lá í lögregluna. „Ég byrjaði í afleysingum í lögreglunni árið 2008 áður en ég fór í Lögregluskólann árið 2009,“ segir Aleksandra.

Aleksandra segir að hún viti til þess að annar maður af erlendum uppruna sé í Lögregluskólanum. Þá séu nokkrir aðrir í starfi hjá lögreglunni sem eigi foreldra af erlendum uppruna.

Til þess að geta fengið starf hjá lögreglunni þarf viðkomandi að vera með íslenskt ríkisfang og standast kröfur um íslenskukunnáttu. Aleksandra hóf störf í alþjóðadeild árið 2012 en hafði áður starfað hjá lögreglunni á Eskifirði og Seyðisfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert