Stjórnvöld sjái um gjaldtöku í stað einkaaðila

Gnótt náttúruperla er á Mývatnssvæðinu.
Gnótt náttúruperla er á Mývatnssvæðinu. mbl.is/Birkir Fanndal

Á aðalfundi Mývatnsstofu sem haldinn var í dag er lýst yfir áhyggjum af því að einstakir landeigendur hyggist selja aðgang að náttúruperlum á Mývatnssvæðinu. Hafa landeigendur gripið til þessa ráðs til þess að byggja upp viðeigandi aðstöðu fyrir ferðafólk.

Mývatnsstofa telur heppilegra að gjaldtakan sé í höndum ferðaþjónustunnar og stjórnvalda. Hvetur hún þessa aðila til þess að hefja nú þegar gjaldtöku af ferðamönnum sem staðið geti undir nauðsynlegri uppbyggingu og rekstri á ferðamannastöðum á næstu árum.

Er Mývatnsstofa að vísa til fundar í Landeigendafélagi Reykjahlíðar þar sem samþykkt að stefna að því að setja á náttúruverndargjald í landi Reykjahlíðar á árinu 2014. Á landareigninni eru sumir af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins og þessi ákvörðun þýðir að ferðamenn þurfa að greiða fyrir aðgang að þeim.

Margföldun á framlagi

Í yfirlýsingu frá Steingrími J. Sigfússon atvinnuvega og nýsköpunarráðherra kemur fram að hann samsinnir aðstandendum Mývatnsstofu um að mikil þörf sé á að fjárfesta í innviðum ferðaþjónustunnar til þess að taka á móti vaxandi fjölda ferðamanna.

Hins vegar bendir hann á að nú þegar hafi verið lögð aukin framlög í málaflokkinn.

„Varðandi ályktun um að of litlir fjármunir séu settir í þessa uppbyggingu þá er sjálfsagt allt afstætt. En, vonandi hefur það ekki farið framhjá Mývatnsstofu að samtals verður varið gegn um framkvæmdasjóð ferðamála og það sem fer til þjóðgarða og friðlýstra svæða um 850 milljónum króna til slíkra verkefna á grunni fjárfestingaáætlunar ríkisstjórnarinnar (750
milljónir) og með tekjum af gistináttagjaldi (segjum 120). Þetta er sennilega á milli 6 og 8 földun framlaga til þessara verkefna," segir Steingrímur.

Hafa ekki efni á því að sækja um styrk

Í kjölfar yfirlýsingar Steingríms sendi Guðrún M. Valgeirsdóttir sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá sér fréttatilkynningu um málið. Þar segir hún að ekki sé verið að gera lítið úr því framlagi sem þegar hefur verið sett í málaflokkinn en gagnrýnir þær reglur sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða setur á umsækjendur.  

„Sú vinnuregla stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða að krefjast 50% mótframlags frá umsækjanda gerir það að verkum að menn heykjast við að sækja um að ég tali nú ekki um þegar um tugamilljóna króna framkvæmdir er að ræða, þá fjármuni eiga einstaklingar og fyrirtæki  og jafnvel sveitarfélög ekki til nema kannski í örfáum undantekningartilfellum,“ segir Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert