Bjóða starfsfólki vistvænan samgöngustyrk

Guðmundur Andri Hjálmarsson er einn fjölmargra starfsmanna RB sem skrifað …
Guðmundur Andri Hjálmarsson er einn fjölmargra starfsmanna RB sem skrifað hafa undir vistvænan samgöngusamning. Fyrir aftan hann má sjá hlaupahóp RB teygja. Ljósmynd/Guðmundur Tómas Axelsson

Tæpur þriðjungur starfsfólks Reiknisstofu bankanna hefur í maímánuði skrifað undir samgöngusamning við fyrirtækið, sem felst styrk gegn því að stunda vistvænan ferðamáta. Starfsfólkið skuldbindur sig til að hjóla, ganga eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu a.m.k. þrisvar í viku.

Þessi nýbreytni er liður í því að fylgja vistvænni samgöngustefnu sem RB hefur sett sér og vill þannig sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að bættu umhverfi. AUkinn umferðarþungi í borgum veldur sífellt meiri mengun, hávaða og öngþveiti sem vistvænn samgöngusamningur stuðlar að því að draga úr auk þess að hvetja til aukinn hreyfingar og bættrar heilsu starfsfólks.

„Þá er ótalinn sá sparnaður sem skapast með því að minnka notkun á einkabílum,“ segir í fréttatilkynningu frá RB. Þar segir jafnframt að viðbrögð starfsfólks hafi verið afar jákvæð því á tveimur vikum skrifuðu 34% undir vistvænan samgöngusamning. RB er að sjálfsögðu með lið í „Hjólað í vinnuna“ átakinu og er mikið kapp lagt á að ná góðum árangri þar.

Fyrir utan samgöngustyrkinn sem starfsfólkið fær fyrir vikið er hægt að nýta íþróttastyrk sem fyrirtækið greiðir starfsfólki til kaupa á íþróttafatnaði, búnaði til hjólreiðaiðkunar o.fl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert