Ríkið sýknað af 54 milljarða kröfu Dekabank

Dekabank höfðaði málið gegn Glitni sem íslenska ríkið tók yfir …
Dekabank höfðaði málið gegn Glitni sem íslenska ríkið tók yfir haustið 2008 í kjölfar efnahagshrunsins. mbl.is/Frikki

Hæstiréttur hefur sýknað íslenska ríkið af kröfu þýska bankans Dekabank sem krafðist 338 milljóna evra í bætur frá íslenska ríkinu, eða um 54 milljarða kr. Bankinn var einn kröfuhafa gamla Glitnis sem ríkið tók yfir haustið 2008.

Sjö hæstaréttardómarar dæmdu í málinu og komust þeir að þeirri niðurstöðu að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur skyldi vera óraskaður.

Þeir hafna því að saknæm og ólögmæt háttsemi af hálfu íslenska ríkisins hefði verið meðverkandi ástæða tjóns Dekabanks vegna viðskipta hans við Glitni. Var ríkið því sýknað af skaðabótakröfu Dekabank.

Dekabank og Glitnir áttu í svokölluðum endurhverfum viðskiptum sín á milli árið 2008. Á meðal þess sem bankinn keypti af Glitni voru skuldabréf sem Kaupþing og Landsbankinn gáfu út.

Þýski bankinn taldi að íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna aðgerðaleysis þess í aðdraganda bankahrunsins. Fjölmörg mistök hefðu verið gerð og þá sérstaklega af Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu.

Þýski bankinn lánaði Glitni um 677 milljónir evra á fyrri hluta árs 2008 í formi endurhverfra viðskipta um kaup og sölu á fjármálagerningum útgefnum af Landsbankanum og Kaupþingi. Í kjölfar falls íslenskum bankanna þriggja í október 2008 lýsti Dekabank kröfu við slit Glitnis en höfðaði jafnframt skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert