Regnbogafána flaggað víða

IDAHO-dagurinn, alþjóðlegur baráttudagur gegn hómó-, bi- og transfóbíu er í dag. Dagurinn hefur verið haldinn 17. maí ár hvert síðan árið 2005, en þann dag árið 1990 var samkynhneigð tekin út af sjúkdómalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

 Í tilefni 35 ára afmælis Samtakanna ’78 hvatti félagið sveitarfélög, skóla og aðrar opinberar stofnanir til að flagga regnbogafána í dag til stuðnings við hinsegin fólk og ekki stóð á viðtökunum. Í dag má sjá regnbogafánann blakta við hún vítt og breitt um landið, m.a. við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu í Reykjavík en það var Katrín Jakobsdóttir, ráðherra mennta-, menningar – og jafnréttismála sem dró fánann að húni þar á ellefta tímanum í morgun, samkvæmt tilkynningu frá Samtökunum '78.

„Fælni, hræðsla og fordómar í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks er enn í dag raunverulegt vandamál bæði hérlendis og erlendis. Þó að Íslandi hafi náð langt hvað lagaleg réttindi varðar er enn margt sem betur má fara. Skemmst er að minnast nýlegrar rannsóknar sem leiddi í ljós aukna hættu á sjálfsvígum meðal samkynhneigðra unglinga miðað við gagnkynhneigða jafnaldra þeirra.

Víða erlendis er staðan enn verri, hinsegin fólki er útskúfað og dauðarefsingum enn beitt,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert