Báðar hendurnar brotnuðu

Hafþór Ingvarsson er í gifsi á báðum höndum. Hér er …
Hafþór Ingvarsson er í gifsi á báðum höndum. Hér er hann við opnun Listahátíðar ásamt konu sinni Sara Brownsger og Paul Gunningham. Eggert Jóhannesson

Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, lenti í óhappi í vikunni á leið sinni heim úr vinnu. Hann notar hjólið oft sem samgöngumáta til og frá vinnu og var virkur þátttakandi í átakinu Hjólað í vinnuna. 

„Það var maður fyrir framan mig sem var að hlusta á tónlist,“ segir Hafþór. „Hann lagar heyrnartólin og fer þá yfir á vinstri vegarhelminginn þar sem ég var að reyna að komast framhjá.“

Stýrin kræktust því næst saman, Hafþór missir jafnvægi og þeytist á malbikið. Við það brotnuðu báðar hendur hans og viðbein. „Þetta var ekki mjög þægilegt,“ segir hann. Hinn reiðhjólamaðurinn slapp ómeiddur.

Fann hjálminn renna eftir malbikinu

Hafþór þakkar fyrir að hafa verið með hjálm og hanska. „Ég fann hvernig hjálmurinn rann á malbikinu. Ef það hefði verið höfuðið sjálft, þá væri ég illa farinn í dag.“

Hanskarnir björguðu höndunum einnig að vissu leyti, þær eru ekki rispaðar, þó þær séu vissulega brotnar.

Þessa dagana nýta margir landsmenn hjólið sem samgöngumáta. Hafþór segir mikilvægt að hjólreiðamenn hugi hver að öðrum þegar farið er um stígana. „Fólk verður að hugsa eins og í bílaumferðinni, vera á sínum vegarhelmingi og fara ekki of hratt,“ segir hann. „Kannski var ég á of mikilli ferð sem gerði fallið verra fyrir bragðið.“

Margir kjósa að hlusta á tónlist þegar þeir hjóla. „Þeir missa þá tengslin við það sem er að gerast í kringum þá,“ segir Hafþór. „Þetta getur orðið hættulegt.“

Hafþór verður í gifsi næstu vikurnar og hefur því fækkað um einn í liði Listasafns Reykjavíkur. Hann hvetur hjólreiðamenn til að nota hjálminn, fylgjast með með umhverfi sínu og fara ekki of hratt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert