Heyra ekki í Ingólfi fyrr en eftir 2 daga

Ingólfur Geir Gissurarson Everest-fari.
Ingólfur Geir Gissurarson Everest-fari.

Everest-farinn Ingólfur Geir Gissurarson, sem náði tindi þessa hæsta fjalls heims í nótt, mun ekki heyra í fjölskyldu sinni fyrr en eftir um það bil tvo daga. Þetta segir Guðmundur Stefán Maríusson, talsmaður Ingólfs, en hann hóf ferðina með Ingólfi en þurfti frá að hverfa vegna veikinda. Hann segir að samkvæmt upplýsingum frá tjaldbúðarstjóra í grunnbúðum fjallsins hafi veðurspáin í nótt verið afar hagstæð og meðal annars hafi verið stjörnubjart.

Uppgangan tók um 8 til 9 klukkustundir og segir Guðmundur að samkvæmt sínum upplýsinginum hafi færið verið gott. Þá hafi það hjálpað mikið til að fáir hafi verið á tindinum þessa nótt og því hafi þeir ekki verið fastir lengi og beðið eftir öðrum fjallgöngumönnum. Þá hafi spáin gert ráð fyrir að bjart hafi verið á toppnum, en Guðmundur segir að Ingólfur hafi stoppað mjög stutt uppi. Gangan niður tók að hans sögn um 4 tíma.

Tekur 2 daga að komast í grunnbúðirnar og símasamband

Það tekur um 2 daga að komast niður í grunnbúðir og Guðmundur segir að fram að þeim tíma muni hann eða fjölskylda Ingólfs væntanlega ekki heyra í honum, en hann er ekki með gervihnattasíma og ekki gekk að tala við hann með því að tengja saman talstöð og síma í neðri búðum fjallsins.

Eftir að Ingólfur er kominn í grunnbúðirnar tekur við um 3 daga ferð niður að Lukla, þaðan sem flogið er, en Guðmundur segir að þetta sé einn hættulegasti flugvöllur heims. 

Ingólfur er 50 ára og elstur Íslendinga til að ná að toppa Everest-fjall, en hann fór upp Suðurskarðið sem er Nepal megin á fjallinu.

Eins og sjá má er flugvöllurinn í Lukla beint upp …
Eins og sjá má er flugvöllurinn í Lukla beint upp við fjallshlíð. Þá er þoka daglegt brauð sem kemur í veg fyrir flug þangað oft á tíðum. mynd/wikipedia.org
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert