Áfall fyrir Evrópusambandið

AFP

Sú ákvörðun nýrrar ríkisstjórnar Íslands að setja viðræður um inngöngu í Evrópusambandið á ís er áfall fyrir sambandið sem er ekki lengur talið örugg höfn fyrir litlar þjóðir í kjölfar efnahagserfiðleikanna á evrusvæðinu. Þetta segir Bruno Waterfield, fréttaritari breska dagblaðsins Daily Telegraph í Brussel, á fréttavef blaðsins í dag. „Þetta er þeirra val,“ hefur hann eftir ónafngreindum embættismanni sambandsins.

Waterfield segir að ákvörðunin muni vera olía á eldinn í umræðum í Bretlandi um veru landsins í Evrópusambandinu en David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur heitið þjóðaratkvæði árið 2017 um það hvort landið verði áfram í sambandinu ef Íhaldsflokkurinn nái hreinum meirihluta á breska þinginu í þingkosningunum sem fyrirhugaðar eru 2015.

Haft er eftir Nigel Farage, leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party), í fréttinni að um „stórkostlegar fréttir“ sé að ræða. „Þeir hafa virkilega sýnt hvert skal halda. Íslendingar vilja greinilega standa vörð um lýðræðið sitt, sjávarútveginn og efnahagslífið.“

Farage rifjar ennfremur upp að Íslendingar hafi nýverið samið um fríverslun við Kína og njóti nú hagvaxtar á ný. „Þetta útspil Íslands sýnir að Evrópusambandið er í síauknum mæli álitið misheppnað pólitískt og efnahagslega.“

Einnig er rætt við martin Callanan, þingmann breska Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, sem segist hafa fullan skilning á því að Íslendingar séu ekki spenntir fyrir því að ganga í Evrópusambandið eins og sakir standi.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert