Phelps: Óráð að sækja um ESB

Edmund S. Phelps
Edmund S. Phelps mbl.is/Kristinn

Bandaríski hagfræðiprófessorinn Edmund Phelps telur óráð fyrir Ísland að sækja um Evrópusambandsaðild eins og sakir standa og tekur þar í sama streng og ný ríkisstjórn Íslands.

Hann telur ekki útilokað að tilraunin með ESB og evruna muni reynast mislukkuð. Phelps telur að Íslendingar ættu að skoða að fastgengisstefnu fyrir krónuna, t.d. með því að festa gengið við gengi Bandaríkjadal, að því er fram kemur í viðtali Bloomberg fréttastofunnar við Phelps.

„Ég trúi því ekki að nokkrum sé alvara með aðild að ESB um þessar mundir,“ segir Phelps. „Það er eins og að segja: Þetta er fallegt hús -- það stendur í björtu báli í augnablikinu -- við ættum að kaupa það!,“ segir hann í viðtali við Bloomberg.

 Phelps fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2006. Verðlaunin fékk hann fyrir rannsóknir í þjóðhagfræði en hann er þekktastur fyrir rannsóknir sínar á tengslum atvinnuleysis og verðbólgu.

Phelps varar í viðtalinu við Bloomberg við þeirri hættu sem fylgi aðild að ESB fyrir Ísland í efnahagslegu tilliti. Hann segir að heimurinn sé enn að draga lærdóm af tilraunum Evrópu og af hvaða leyti hún muni takast. Hætta sé á að tilraunin mistakist og verði ónothæf.

Phelps er prófessor við Columbia háskólann í New York og hefur margoft komið til Íslands og þekkir aðstæður vel á Íslandi en hann og Gylfi Zoëga hafa unnið saman í áraraðir og skrifað fjölda ritgerða sem birst hafa í erlendum tímaritum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert