Íslendingar Norðurlandameistarar í bridsi

Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson spila við Finna í Hótel …
Jón Baldursson og Þorlákur Jónsson spila við Finna í Hótel Keflavík þar sem mótið var haldið. mbl.is/Arnór

Ísland varð í dag Norðurlandameistari í bridsi en íslenska liðið vann öruggan sigur í opnum flokki á mótinu, sem fram fór í Keflavík. Einnig var keppt í kvennaflokki en þar varð íslenska liðið í fjórða og neðsta sæti.

Sex lið kepptu í opnum flokki og var spiluð tvöföld umferð með 16 spila leikjum. Ísland tók þar snemma forustuna og vann alla leikina fimm í fyrri umferðinni. Í síðari umferð vann liðið tvo leiki en tapaði þremur.

Lokastaðan var sú, að Ísland endaði með 137,10 stig, Danir fengu 129,17 og Finnar 108,07 stig. Norðmenn enduðu í fjórða sæti, Svíar í fimmta sæti og Færeyingar í 6. sæti.

Í kvennaflokki var spiluð tvöföld umferð og tvær efstu sveitirnar spiluðu síðan um titilinn en hinar tvær um þriðja sætið. Danir sigruðu Norðmenn örugglega í úrslitaleiknum og Svíar unnu Íslendinga í leiknum um bronsið.

Íslensku Norðurlandameistararnir eru Aðalsteinn Jörgensen, Bjarni Einarsson, Jón Baldursson, Þorlákur Jónsson, Guðmundur Snorrason og Ragnar Hermannsson. Í kvennaliðinu spiluðu Anna Ívarsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, Bryndís Þorsteinsdóttir, María Haraldsdóttir, Ólöf H. Þorsteinsdóttir og Svala K. Pálsdóttir en Ásgeir Ásbjörnsson var fyrirliði.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert