Alvarlegar athugasemdir við Samál

Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason Morgunblaðið/ Þorkell

Andri Snær Magnason gerir alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar Samáls í svari vegna bréfs Guðbjartar Gylfadóttur til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs-, landbúnaðar og umhverfisráðherra.

„Fullyrðingar Samáls um störf Vinnumálastofnunar eru tóm vitleysa,“ segir Andri Snær. „Þeir segja að 4.500 störf séu á vegum Vinnumálastofnunar og ýja í raun að því í leiðinni að störf verði ekki til nema með tilkomu áls eða mikillar orku, sem er að verða landlæg farsótt. Það vill svo til að það eru 1.300 manns í störfum hjá Vinnumálastofnun í apríl 2013,“ og segir að það skeiki mjög miklu í þessum tölum Samáls.

„500 af þessum störfum voru í viðmiðunarárinu, þannig að það munar í raun 800 störfum. Þarna hafa því skapast 4.900 störf, auk þess sem ég þekki fólk sem hefur unnið á vegum Vinnumálastofnunar og komist þannig út úr viðjum atvinnuleysis gegnum þetta. Mér finnst algjör óþarfi að láta eins og þetta sé bara einhver falskur botn,“ segir Andri Snær.

„Árin 2011 til 2013 sköpuðust hér 5.800 störf því það voru 5.800 fleiri á vinnumarkaði á fyrsta ársfjórðungi 2013 en voru á sama tíma 2011. Það er eins og 12 álver. Samál reynir að segja að þessi störf séu einhver falskur botn og þetta séu bara einhver 4.500 atvinnubótastörf. Sannleikurinn er hins vegar sá að að það hafa skapast nærri 5.000 störf á þessu tímabili fyrir utan störfin hjá Vinnumálastofnun,“ segir Andri Snær. „Sem er samt jafnmikið og 10 álver.

Andri Snær segir þetta sanna það sem hann sagði í grein sinni um að lítill þrýstihópur væri farinn að eigna sér sköpunarkraft atvinnulífsins. „Þetta er að mínu mati andleg nýlendustefna, vegna þess að þarna urðu til 5.800 ný störf í fiskiðanaði, ferðaþjónustu og nýsköpun, án þess að það sé hægt að benda á neinar raunverulegar stórframkvæmdir sem hafa komið til,“ segir Andri Snær. „Það eru menn sem halda fram að það verði ekkert til á Íslandi nema til komi ál og stóriðja og að mótvægið sé fjallagrös.“

„Önnur rangfærsla Samáls varðandi endurvinnslu gosdósa en sú að á hverju ári fara um 700.000 tonn af gosdósum á hauga í Bandaríkjunum samkvæmt Environmental Protection Agency (EPA). Það ál myndi duga til að endurnýja allan almennan flugflota Bandaríkjanna fjórum sinnum á hverju ári. Í heild farga Bandaríkin 2,7 milljónum tonna af áli ári, sem er eins og átta álver á Reyðarfirði framleiða,“ segir Andri Snær.

Frétt mbl.is: „Eitthvað annað“ mun arðbærara en álið

Frétt mbl.is: „Nánast allt byggt á misskilningi“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert