Bílbelti hefðu getað bjargað þremur

9 létust í umferðarslysum á árinu 2012
9 létust í umferðarslysum á árinu 2012 Júlíus Sigurjónsson

Árið 2012 létust níu manns í níu umferðarslysum á Íslandi. Flest slysin voru vegna útafaksturs eða sex talsins en í tveimur var ekið á gangandi vegfarendur. Í einu slysi varð árekstur tveggja ökutækja sem rekja má til vindhviðu. 

Þetta kemur fram í Skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa (RNU) fyrir árið 2012. Verulega hefur dregið úr fjölda dauðsfalla í umferðinni undanfarin 10 ár. Þegar mest lét, árið 2006, létust 31 í umferðarslysum, en árið 2010 létust átta.

Í þremur banaslysum notuðu ökumenn ekki bílbelti. Rannsóknarnefndin telur sennilegt að þeir hefðu allir lifað slysið af hefðu þeir notað beltin.

Eitt banaslysið má rekja til þess að ökumaður bifreiðar var í óökuhæfu ástandi sökum neyslu áfengis og vímuefna. Ökumaðurinn var auk þess réttindalaus vegna ítrekaðra umferðarlagabrota.

Kanna ný úrræði gegn ölvunar- og lyfjaakstri

Í skýrslunni segir að stór hópur ökumanna sem tekinn hefur verið fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur hér á landi er staðinn að broti á ný innan árs, eða um 20% þessara ökumanna.

Að mati rannsóknarnefndar umferðarslysa er brýnt að rannsaka hvaða úrræði hafa gefist vel í öðrum löndum og sem leitt geta til breyttrar hegðunar ökumanna sem aka ítrekað undir áhrifum áfengis og/eða lyfja. Nefndin leggur til að skoðað verði hvort hægt sé að taka upp svokallaðan áfengislás, en segir að hann komi eðli málsins samkvæmt ekki í veg fyrir lyfja- og fíkniefnaakstur.

Nefndin hefur hér helst í huga meðferðarúrræði og námskeið, undir virkri stjórnun og eftirliti, sem nýjan valkost í refsivörslukerfinu. Leggur RNU til að innanríkisráðuneytið skipi hóp fagaðila á sviði réttarfars og refsivörslu og meðferðar við áfengis- og fíkniefnasýki, sem falið verði að vinna tillögur til sóknar gegn þessari vá í umferðinni.

Skoða betur reiðhjólaslys

Í ljósi ört vaxandi þáttar hjólreiða sem samgöngumáta hefur RNU rannsakað hjólreiðaslys sérstaklega undanfarin tvö ár í samstarfi við Landspítala Háskólasjúkrahús. 

Samkvæmt skýrslunni leiddi rannsóknin í ljós að reiðhjólaslys eru talsvert algengari en áður hafði verið talið en alvarleiki þessara slysa er yfirleitt lítill. Tveir þriðju hlutar hinna slösuðu sem rannsakaðir voru hlutu minniháttar áverka og einungis 4% slasaðra hlutu mjög alvarlega áverka.

Sérstaka athygli vekur að karlmenn, sérstaklega ungir drengir, lenda í 70% hjólreiðaslysa. Skýrsluhöfundar telja líklega skýringu þess vera þá karlmenn hjóli meira.

Í ferðavenjukönnun íbúa höfuðborgarsvæðisins sem gerð var árið 2011 kemur fram að 5% karla eða drengja notuðust við reiðhjól á móti 2% kvenna eða stúlkna. Miðað við þessa niðurstöðu eru um 70% reiðhjólamanna karlkyns og skýrir það þennan mun á slösuðum eftir kyni.

Flestir á aldrinum 15 til 24 - Næstflestir 65 ára og eldri

Í skýrslu RNU kemur fram að 31% þeirra sem létust í umferðarslysum á árunum 1998 til og með 2012 voru á aldrinum 15 til 24 ára, en næstflestir 65 ára eða eldri. Rétt er þó að taka fram að síðargreindi flokkurinn tekur til mun stærra aldursbils en önnur aldursbil eru í skýrslunni.

Sömu sögu er að segja af þeim sem RNU telur að hafi valdið umferðarslysum. Aftur eru 15 til 24 líklegastir til að valda banaslysi í umferðinni, eða í 30% slysa, en 65 ára og eldri þar á eftir með 19%. Þá kemur fram að mun fleiri karlar látast í umferðinni en konur.

Sunnudagsbílstjórnar hættulegastir

Í skýrslunni er einnig að finna samantekt á hvaða dögum slys verða oftast. Flest umferðarslys á árunum 1998 til 2012 urðu á sunnudögum, 19%, en fæst á þriðjudögum eða 10%. Næstflest urðu þau á fimmtudögum og föstudögum, 15% hvor dag. Leiða má líkur að því að sunnudagar séu vegfarendum hættulegastir þar sem áfengisdrykkja er hvað algengust um helgar og þau slys sem verða aðfaranótt sunnudags teljast til sunnudaga.

Ennfremur sannast hið fornkveðna að hraðinn drepur. 55% dauðsfalla í umferðinni urðu á vegum þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þá urðu 72% banaslysa í dreifbýli, en einungis í drefbýli er hámarkshraði 90 kílómetrar á klukkustund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert