„Þetta er hið leiðinlegasta mál“

Páll Bragi Hólmarsson á ræktunarbússýningu Austurkots á Landsmót hestamanna 2012.
Páll Bragi Hólmarsson á ræktunarbússýningu Austurkots á Landsmót hestamanna 2012. Styrmir Kári

„Farið var niðrandi orðum um hrossið mitt auk annarra hrossa, jafnvel þau sem tengdust ekki beint þeim sem voru í braut. Talað var illa um þekktan heiðursverðlaunahest þegar afkvæmi hans var í brautinni. Stærsta málið í þessu er viðhorf dómarans sem er opinber aðili að dæma kynbótagrip,“ segir Páll Bragi Hólmarsson knapi sem reið hryssunni Snæsól frá Austurkoti í kynbótadómi á Selfossi í vikunni.

Mest bar á ummælum eins dómara af þremur. Óviðurkvæmileg orð voru látin falla um fjögur hross þegar gleymdist að slökkva á hljóðnema í kynbótadómi á Selfossi, að sögn Páls Braga en þrír kynbótadómarar dæma hrossin. 

„Ég var alveg gjörsamlega gáttaður, maður er eiginlega hálf miður sín því þetta er eitthvað sem á að vera skemmtilegt, að sýna afrakstur vinnu vetrarins og fá dóm. Ég vildi ekki trúa þessu fyrst þegar mér var sagt frá þessu því allir þekkjast í þessum bransa. Ég var eiginlega eins og álfur út úr hól,“ segir Páll Bragi spurður hvernig honum hafi liðið þegar hann frétti af ummælum dómarans.

Hann áréttar að bréf verður sent til fagráðs hrossaræktar sem mun taka á málinu.  

Hryssan sem Páll Bragi fór með fyrir dóm lækkaði mikið frá síðasta kynbótadómi. „Ég þekki þetta tiltekna hross alveg út og inn. Samanburðurinn minn var sá að sýningin hafi verið mjög svipuð og sú fyrri. En hún lækkaði mjög mikið. Maður getur staðið á gæðum hrossins þegar það er margsannað með fyrri dómum. Viðhorfið var greinilega ekki jákvætt,“ segir Páll Bragi og segir: „Þetta er hið leiðinlegasta mál en þörf á að velta upp þessum steinum.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert