Beðið eftir rafvirkjanemum

Styrmir Kári

„Það eru góðar horfur á þessu sviði í dag,“ segir Sigurður Sigurðsson, formaður sveinsprófsnefndar í rafvirkjun. Á mánudag hófst sveinspróf í rafvirkjun með bóklegu prófi, en rúmlega 60 nemar gangast undir prófið þessa vikuna. Verkefnin eru af ýmsum toga, bæði bókleg og verkleg og eiga þau að endurspegla þær áskoranir sem rafvirkinn mætir í sínum daglegu störfum.

Sigurður segir rafvirkjunina góðan stökkpall fyrir háskólanám, en margir kjósa að mennta sig enn frekar að loknu sveinsprófi. Í dag starfa um 2000 rafvirkjar hér á landi og segir Sigurður einnig að mikil aðsókn sé eftir rafvirkjanemum hér á landi. 

Taka aldrei u beygjur

Áður en rafvirkjanemar fá að gangast undir sveinsprófið í rafvirkjuninni þurfa þeir annaðhvort að hafa lokið iðnnámi á verknámsbraut eða samningsbundnu iðnnámi. Í báðum tilvikunum starfa nemarnir á samning undir handleiðslu meistara í nokkurn tíma áður en þeir fá að spreyta sig á sjálfu sveinsprófinu. Prófið er haldið tvisvar á ári, í febrúar og júní. 

„Í verklega prófinu þurfa nemarnir að setja búnað í töflu, setja upp ljós, tengla og tenglarennur,“ segir Sigurður. Einnig þarf að tengja töflu og allan búnað í henni, ásamt því að ganga vel frá öllu. „Það má segja að það sé uppleggið í þessu prófi,“ bætir hann við. Í bóklega prófinu fást nemarnir meðal annars við iðnteikningu, rafmagnsfræði og reglugerðir. Í heildina litið ættu verkefni prófsins því að endurspegla þær áskoranir sem rafvirki fæst við í hans daglegu störfum

Verklega prófið er átta klukkustundir og fá nemendurnir ekki að vita nákvæmlega í hverju verklega prófverkefnið felst fyrr en það hefst. Þeir hafa þó aðgang að prófum fyrri ára og get því áttað sig á umfangi verkefnisins. „Við tökum þó aldrei neinar u beygjur,“ segir Sigurður. „Þeir vita nokkurn veginn að hverju þeir ganga þegar þeir koma inn í prófið.“

Hluti af undirbúningi prófsins er að útvega verkfæri og efni fyrir smíðina í prófinu samkvæmt lista. Miklu máli skiptir að vera vel undirbúinn og hafa réttu hlutina til staðar við lausn verkefnanna og því þurfa rafvirkjanemarnir að sýna skipulagshæfni og vandvirkni. 

Umgengni í prófinu skiptir máli

Í verklega prófinu dæma tveir meistarar hvern bás. „Við skoðum meðal annars hversu vel þetta er gert, hvernig þetta er lagt og síðan þarf búnaðurinn að virka,“ segir Sigurður. Prófdómararnir kanna hvernig staðið er að framkvæmd verksins og taka umgengni og efnisnýtingu inn í reikninginn.

Það er engin tilviljun að þessir þættir séu metnir sérstaklega í prófi sem þessu. „Þetta eru allt þættir sem skipta máli á vinnustaðnum sjálfum,“ segir Sigurður. „Ef umgengnin er góð, þá er framkvæmdin yfirleitt miklu betri og þá gengur vinnan miklu betur.“

Góðar horfur í rafvirkjuninni

Sveinsprófin eru síður en svo ný af nálinni en þau hafa verið haldin í áratugi. Sigurður hefur komið að prófunum í mörg ár og hefur því fylgst með mörgum nemum sýna fram á hæfni sína á í rafvirkjun. Elsti neminn sem hann man eftir var rúmlega sjötugur. Hann var smiður og hafði gefist upp á önnum rafvirkja og ákvað því að skella sér í námið til að geta bjargað sér sjálfur. 

„Árið 2007 varð algjör sprengja,“ segir Sigurður. Það ár komu um hundrað nemar í sveinprófið í júní, en í ár er von á 60 nemum.

„Í dag er beðið eftir nemum,“ segir Sigurður um aðsókn eftir rafvirkjum á Íslandi, en þetta hefur hann eftir rafvirkjameisturum hér á landi. Rúmlega 2000 einstaklingar starfa við rafvirkjun hér á landi og um 300 íslenskir rafvirkjar vinna í Noregi. „Það eru góðar horfur í þessu í dag.“

Styrmir Kári
Styrmir Kári
Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert