Sáu skriðu og létu af störfum

Aurskriða í Köldukinn í lok maí.
Aurskriða í Köldukinn í lok maí. mbl.is

Yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni var ásamt gröfumanni að vinna við að ryðja eðju af veginum við Ystafell um Köldukinn eftir hádegið í gær þegar hann heyrði skruðninga í hlíðinni og sá spýju koma niður. Mennirnir létu því umsvifalaust af störfum og verður vegurinn lokaður alla vega fram yfir helgi.

Vegurinn er lokaður fyrir allri umferð, akandi og gangandi fram yfir helgi. Þá mun ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands endurmeta stöðuna. Ekki verður unnið að viðgerð á veginum á meðan lokunin varir.

Vegurinn skolaðist burt á um hundrað metra kafla og líklega hafa einir tvö þúsund rúmmetrar horfið. Gunnar Bóasson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir á vefsvæði Vegagerðarinnar, að þegar hann kom að staðnum þar sem vegurinn sópaðist burtu hafi hann gert sér grein fyrir að gífurlegir kraftar hafi verið að verki, enda skemmdirnar mun meiri en reiknað var með.

Þá segir að reikna megi með að mest af þeim snjó sem er í fjöllum þarna bráðni á næstu dögum, því geti fleiri skriður fallið. Á meðan er ekki hægt að vinna við viðgerð á veginum sjálfum en unnið er að undirbúningi. Reikna má með að viðgerð taki allt að þrjá daga þegar menn komast á staðinn til að vinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert