Öxará í miklum ham

„Það rigndi svo mikið í gær að Öxará flæddi yfir bakka sína og það lokuðust leiðir yfir þingstaðinn frá Lögbergi yfir að Peningagjá,“ sagði Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslustjóri þjóðgarðsins á Þingvöllum, sem  náði myndum af flóðinu.  

„Öxará liggur þannig að rigningar og leysingar skila sér fljótt niður í hana og hækkar yfirborð hennar því mjög hratt. Hins vegar lækkar yfirborðið hratt líka og í dag er allt komið aftur að mestu leyti í venjulegar horfur, en Neðrivellir eru þó ennþá á floti.“  

Eins og sést á myndinni var svæðið frá Lögbergi alla leið að Flosagjá umflotið vatni. „Þetta gerist svona tvisvar, þrisvar á ári en oftast á veturna þegar ísstíflur myndast. Þá þarf minna vatn til þess að flæði svona yfir,“ segir Einar og bætir við að það sé tilkomumikið að sjá Öxará í slíkum ham. „Það eru fæstir íslendingar sem koma hingað á óveðursdögum og fá þar með að sjá þetta gerast.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert