„Forsetanum er frjálst að tjá sig“

Frá þingsetningu í dag.
Frá þingsetningu í dag. Kristinn Ingvarsson

„Forsetanum er frjálst að tjá sig en það er vitanlega ríkisstjórnin sem mótar stefnuna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, spurður út í ummæli í Ólafs Ragnars Grímssonar við þingsetningu í dag.

Í ræðu sinni við þingsetningu sagði forsetinn meðal annars að viðræður við Evrópusambandið gengju allt of hægt þar sem ekki væri mikill vilji innan sambandsins til að ljúka viðræðum. Ástæðuna sagði hann vera þann ótta sem væri innan sambandsins um að Ísland myndi fella samninginn líkt og Norðmenn hefðu gert tvívegis. „Mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til ljúka þeim (viðræðunum) á næstu árum,“ sagði Ólafur Ragnar við þingsetninguna.

Össur Skarphéðinsson, fráfarandi utanríkisráðherra, kallaði eftir því í frétt á RÚV að forseti Íslands myndi tilgreina hvaða ríki ESB vilji ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Kallaði hann jafnframt eftir því að Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, myndi inna forsetann um svör þess efnis.

Gunnar Bragi segir að hann muni ekki tala við forsetann til þess að fá hann til að skýra ummæli sín nánar. „Ég lít svo á að þetta sé hans mat eftir samtal sitt við fólk. Ég hef enga ástæðu til að spyrja hann nánar út í þetta. Forseti Íslands hefur alltaf tjáð hug sinn,“ segir Gunnar Bragi.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert