Hlaupandi efnafræðidúx Kvennó

Stúdentinn Ingvar Hjartarson ásamt systrum sínum, Hrefnu og Signýju Hjartardætrum
Stúdentinn Ingvar Hjartarson ásamt systrum sínum, Hrefnu og Signýju Hjartardætrum

„Snýst þetta ekki bara um skipulag og aga?“ spyr Ingvar Hjartarson á móti, þegar blaðamaður spyr hann að leyndarmálinu að baki því að dúxa í menntaskóla. Ingvar er dúx Kvennaskólans í Reykjavík og útskrifaðist með 9,46 í meðaleinkunn af náttúruvísindabraut. 

„Raungreinar hafa reyndar alltaf legið vel fyrir mér. Ég hef aldrei þurft að hafa mikið fyrir þeim. Eftir því sem tungumálafögunum fækkaði eftir því sem leið á Kvennó þá hefur meðaleinkunnin mín farið stighækkandi í takt við fleiri raungreinavalfög,“ segir Ingvar. „Það kom mér því mikið á óvart þegar ég fékk verðlaun fyrir frönsku, það er víst sjaldgæft að sami einstaklingur fái verðlaun bæði fyrir raungreinar og tungumál.“

Foreldrar Ingvars eru Auður Ólafsdóttir og Hjörtur Stefánsson. Þau eru bæði verkfræðingar. „Svo er ég að pæla að fara í umhverfis- og byggingaverkfræði við Háskóla Íslands í haust, öllum til mikillar furðu,“ segir Ingvar og hlær.

Í landsliðinu í frjálsum og efnafræði

Ingvar er bæði í landsliði Íslands í frjálsum og efnafræði. „Ég hef aðallega hlaupið langhlaup, 5, 10 og einstaka sinnum 21 kílómeter,“ segir Ingvar. „Ég æfi bæði hjá Skokkhópi Fjölnis og Hlaupahópi Sigga P, fyrrum Íslandsmethafa í heil- og hálfmaraþoni.  Ég hef tvisvar farið út að keppa, bæði á Norðurlanda mót í Svíþjóð og víðavangshlaup í Danmörku. Norðurlandamótið í víðavangshlaupi verður haldið hérna heima í ár og ég tek að sjálfsögðu þátt,“ segir Ingvar. „Besti tíminn minn í 10 kílómetra hlaupi er 33:01, þannig að ég er sennilega með betri hlaupurum á landinu,“ bætir Ingvar við.

Ingvar svarar spurningunni um hvort það hvetji til skipulags að hafa mikið að gera játandi. „Alveg klárlega. Ef þú hefur lítinn tíma þarftu að hugsa fram í tímann og skipuleggja þig.“

Ingvar segist þar að auki vera á leið á Ólympíuleikana í efnafræði í sumar. „Við áttum að vera þarna tveir úr Kvennó, ég og semídúxinn Pétur Már Gíslason, en hann er að fara í sjálfboðaliðastarf þannig að hann þurfti að afþakka boðið.

Ingvar Hjartarson á útskriftardaginn
Ingvar Hjartarson á útskriftardaginn
Ingvar Hjartarson ásamt Helgu Guðnýju Elísdóttur, kærustu hans
Ingvar Hjartarson ásamt Helgu Guðnýju Elísdóttur, kærustu hans
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert