Kostnaðarsamt próf fyrir flugelda

Ríkari öryggiskröfur verða innleiddar varðandi flugelda.
Ríkari öryggiskröfur verða innleiddar varðandi flugelda. Eggert Jóhannesson

Ný tilskipun í EES-samningnum kveður á um ríkari öryggiskröfur varðandi flugelda. Í henni segir að framleiðendum og innflytjendum beri að tryggja að allir flugeldar hafi fengið vottun og gerðarprófun, sem þeir staðfesta með áfestingu CE-merkisins. Jón Ingi Sigvaldason, sölu- og markaðsstjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir þau vera á fullu að undirbúa þetta. Tilskipunin hefur verið felld inn í EES-samninginn og verður að öllum líkindum innleidd með frumvarpi innanríkisráðherra síðar á þessu ári.

Flugeldar grafnir í jörðu

„Nú þarf að setja hverja einustu vöru frá okkur í gerðarprófun, sem kostar töluverða peninga en eitthvað sem þarf bara að gera,“ segir Jón Ingi. Það fer þannig fram að prófað er að kveikja í vörunni, hún hituð, grafin niður og fleira og athugað hvernig hún bregst við. „Þetta er gert af alþjóðlegu þýsku vottunarfyrirtæki sem staðsett er í Kína þaðan sem við kaupum flugeldana.“ Með þessu eru lagðar mun meiri kröfur á framleiðendur flugelda, en engin slík framleiðsla á sér stað á Íslandi. Ábyrgð á því að öllum reglum sé fylgt fellur því hér á landi á innflytjendur sem einnig verða að tryggja að leiðbeiningar á íslensku fylgi vörunni. Jón Ingi segir það alltaf hafa fylgt svo engin breyting sé þar á.

Spurður um hvort strangara eftirlit muni ekki hækka verðið á flugeldunum segir Jón Ingi að kostnaðurinn við þetta sé gríðarlega hár, en taka verður tillit til þess að þetta sé eitthvað sem gert er einu sinni fyrir megnið af vörunum og því oft aðeins kostnaður á einum punkti sem ætti að geta verið dreift á lengri tíma. „Það sem hefur mun meiri áhrif á verð vörunnar er flökt á genginu sem og kostnaður við flutning.“

Augnslys algengust á miðaldra karlmönnum

Jón Ingi segir Slysavarnafélagið Landsbjörg leggja mikla áherslu á öryggi. „Við búumst í raun ekki við að þurfa breyta neinni vöru vegna þessa eftirlits, en þurfum bara að fá vottun á þær. Við erum auðvitað slysavarnafélag og því skiptir okkur mjög miklu máli að vörurnar séu bæði í lagi og þær séu almennilega meðhöndlaðar þegar verið er að skjóta þeim upp.“ Jón Ingi minnir á að augnslys á börnum vegna flugelda hafa stórminnkað með dreifingu hlífðargleraugna  en félagið hefur dreift rúmlega 2,5 milljónum gleraugna á síðustu árum. „Nú verða slysin mest á miðaldra karlmönnum, sem er mikil breyting frá áður.“

Slysavarnafélagið Landsbjörg gerir ráðstafanir vegna öryggis flugelda.
Slysavarnafélagið Landsbjörg gerir ráðstafanir vegna öryggis flugelda. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert