Lauk sveinsprófinu á steypinum

Nemar í húsgagnasmíði sitja fimm annir í skóla og ganga …
Nemar í húsgagnasmíði sitja fimm annir í skóla og ganga í gegnum 72 vikna starfsþjálfun hjá iðnmeistara. mbl.is/Kristinn

„Nemunum hefur miðað vel í vikunni,“ segir Hallgrímur G. Magnússon, formaður sveinsprófsnefndar í húsgagnasmíði. Verklegt sveinspróf í faginu hófst á mánudag og stendur það yfir í fjóra daga, eða í 32 klukkustundir. Í prófinu þurfa nemendurnir að standa skil á þremur hlutum sem þeir smíða á staðnum. Áður en þeir fá leyfi til að spreyta sig á verklega hlutanum glíma þeir við bóklegt próf. Nemarnir standa sig yfirleitt mjög vel að sögn Hallgríms, en ein stúlkan sló sérstaklega í gegn fyrir nokkrum árum síðan. 

Lappastell, borðplata og skápur 

Nemar í húsgagnasmíði sitja fimm annir í skóla og ganga í gegnum 72 vikna starfsþjálfun hjá iðnmeistara. Markmiðið er að nemendur öðlist færni til að smíða, endurnýja og gera við húsgögn, innréttingar, hurðir, glugga og fleira. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni. 

Sveinsprófið í húsgagnasmíði hefst á bóklegu prófi, einni viku áður en til verklegs prófs kemur. Prófið er fimm klukkustundir og þar þurfa nemarnir að sýna færni sína, meðal annars í teikningum. Ef þeir standast það, þá fá þeir að fara í verklega prófið.

„Í verklega prófinu smíða nemarnir lappastell, borðplötu og skáp með hurð og skúffu,“ segir Hallgrímur. „Þetta er hugsað þannig að þegar hlutirnir eru lagðir saman, þá verði til náttborð.“

Fjölgun í smíðinni

Nemendurnir fá teikningar og upplýsingar um kröfur sem gerðar eru í verklega prófinu áður en það hefst. Þeir hafa kost á því að undirbúa sig áður en mætt er í prófið, en smíðin fer þó aðallega fram á prófstað. Timbrið útvega nemarnir sjálfir. „Við skoðum áferðina, málin, spónskurðinn, yfirborðið, vinnubrögðin og fleira,“ segir Sigurður.

„Miðað við síðustu ár eru óvenju margir sem taka prófið,“ segir Hallgrímur, en sjö nemar glíma við prófið þessa vikuna. Þrátt fyrir nokkurn áhuga á faginu og góða aðsókn í skólana hafa ekki margir skilað sér í sjálft sveinsprófið. Yfirleitt taka þrír til fjórir nemar prófið en Hallgrímur segir að nú bendi til þess að fjölgun verði á næstu árum.

„Námið hefur liðið dálítið fyrir það að margir nota það til þess að undirbúa sig fyrir arkitektúr og innanhúshönnun og því skila færri sér í sveinsprófið,“ segir Hallgrímur. Það gerir það að verkum að færri skila sér til sveinspróf en stunda námið. Eftir námið í skólunum liggur leiðin annars vegar beint út á vinnumarkaðinn og hins vegar í frekara nám. Þeir sem fara beint út á vinnumarkaðinn kjósa oft frekar að ljúka sveinsprófinu. 

Komin rúma átta mánuði á leið

Fyrir nokkrum árum síðan var prófið haldið á Akureyri. Meðal þátttakenda var ung stúlka sem var komin rúma átta mánuði á leið. „Það lá við að við hefðum sjúkrabílinn við hliðina á skólanum vegna þess að hún var kominn á steypirinn,“ segir Hallgrímur og hlær. „Það var tvísýnt hvort hún næði að taka prófið eða ekki.“

Hin tilvonandi móðir stóð sig með prýði að sögn Hallgríms og lauk prófinu með glæsibrag áður en barnið kom í heiminn. „Það var gaman að sjá hana drífa sig í þetta og klára prófið, komin svona langt með meðgönguna. Þetta sýnir hörkuna í kvenfólkinu,“ bætir Hallgrímur við.

Í verklega prófinu smíða nemarnir lappastell, borðplötu og skáp með …
Í verklega prófinu smíða nemarnir lappastell, borðplötu og skáp með hurð og skúffu. mbl.is/Kristinn
mbl.is/Kristinn
mbl.is/Kristinn
mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert