Möguleiki á allstórum skjálfta

Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, ræðir við fundargesti.
Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur, ræðir við fundargesti. Þekkingarsetur Þingeyinga

Í Þekkingarsetri Þingeyinga stendur nú yfir ráðstefna um jarðskjálfta á Norðurlandi. Á ráðstefnunni eru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar sem stundað hafa rannsóknir á svæðunum þar sem jarðskjálftar geta myndast.

Ráðstefnan stendur til laugardags. Í kvöld klukkan 18.20 er haldið opið hús þar sem hægt er að spyrja sérfræðinga spjörunum úr. 

Ragnar Stefánsson, jarðskjálftafræðingur og prófessor emeritus frá Háskólanum á Akureyri, segir ráðstefnuna mikilvægan samráðsvettvang. 

„Tilgangur ráðstefnunnar er að leiða saman þá vísindamenn sem gert hafa rannsóknir á upptakasvæði mögulegs jarðskjálfta á Norðurlandi. Hér er fólk sem hefur tekið þátt í mörgum verkefnum sem miða að því að skilja þetta svæði og þá krafta sem togast á.“

Svæðið sem um ræðir er að mestu á hafsbotni og er oftast kallað Tjörnesbrotabeltið og nær það frá Melrakkasléttu í austri að mynni Skagafjarðar og norður til Kolbeinseyjar. Á þessu svæði eru margar sprungur þar sem geta myndast öflugir skjálftar. 

Mikilvægt að vísindamenn beri saman bækur

Ráðstefnan er alþjóðleg, en sérfræðingarnir eru meðal annars frá Ítalíu, Þýskalandi, Bretlandi og Svíþjóð.

Á Suðurlandi er búið að kortleggja jarðskjálftasvæðin mjög vel en þá vinnu er nú verið að vinna á Norðurlandi. 

„Almennt séð er það okkar mat út frá tölfræði og ýmsum gögnum að möguleiki sé á allstórum skjálfta hér fyrir norðan með upptök undir hafsbotni. Það gæti haft mikil áhrif uppi á landi,“ segir Ragnar, en meðal fulltrúa á ráðstefnunni eru einnig fulltrúar frá almannavörnum og munu þeir halda erindi fyrir fundargesti.

Það sé mikilvægt að vísindamenn beri saman bækur sínar ásamt niðurstöðum úr rannsóknum til kortleggja mögulegan jarðskjálfta með sem bestum hætti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert