Þjóðaratkvæði um ESB ekki á dagskrá

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mat beggja stjórnarflokka og meirihluta landsmanna að okkar hag sé betur borgið utan sambandsins. Ef það breytist þá er það okkar stefna að þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi til,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í viðtali við Bændablaðið í dag spurður úti í stefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Evrópusambandinu.

Ráðherrann segir að Íslendingar séu á sömu braut og Maltverjar á sínum tíma og Svisslendingar. Svisslendingar hafi hætt viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu í það og sett málið ofan í læsta kistu. Maltverjar hafi að sama skapi hætt viðræðum en tekið upp þráðinn aftur nokkru síðar vegna breyttra aðstæðna.

„Það sem við höfum sagt er að það verður ekki gert hér nema að á undan hafi gengið þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort Íslendingar vilji ganga í Evrópusambandið, vegna þess að það er lykillinn að því að sækja um,“ segir Sigurður Ingi. Næsta skref sé úttekt á stöðu viðræðnanna og samtal við fulltrúa sambandsins.

„Það getur vel verið að þeir segi að viðræðunum sé bara sjálfhætt með þessari ákvörðun og þá þarf ekki að taka þessa umræðu frekar,“ segir hann ennfremur og bætir við. „Ef þú spyrð mig persónulega sé ég ekki á næstu árum að ástand í Evrópu og heiminum verði með þeim hætti að íslensk þjóð muni óska eftir inngöngu í Evrópusambandið.“

Spurður hvort hann sé með þessu að segja að eins og staðan sé í dag miðað við skoðanakannanir og úrslit þingkosninganna sé mjög ólíklegt að slík þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin á kjörtímabilinu svarar Sigurður: „Eins og ég segi þarf eitthvað stórkostlegt að gerast í heiminum til þess að íslenska þjóðin vilji sækja um aðild, já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert