„Hef rosalega góða tilfinningu fyrir þessu“

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl.is

„Það gengur bara rosalega vel. Við lentum hérna upp úr miðnætti í gær og mættum síðan klukkan átta í morgun upp á spítala að hitta svæfingalækni og fara í gegnum einhverja hluti. Og nú erum við bara að koma okkur fyrir og versla í matinn og svona,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson í samtali við mbl.is en hann missti sem kunnugt er báða handleggi sína í vinnuslysi fyrir um 15 árum síðan. Hann er nú staddur í Lyon í Frakklandi þar sem undirbúningsrannsóknir vegna ágræðslunnar fara fram.

„Þessa viku á ég eftir að klára fleiri hittinga og rannsóknir og eftir það verður væntanlega tekin ákvörðun hvort þeir setja mig á lista strax eða hvort þeir ætli að bíða fram á haustið fram yfir sumarfrí. Ég veit ekki alveg hvernig það verður,“ segir Guðmundur Felix. Það ætti þó að liggja fyrir í lok vikunnar hvert framhaldið verði. „Við erum annars í tímabundnu húsnæði hérna fullbúnu sem við höfum í mánuð á meðan við erum að leita að langtímahúsnæði. Þannig að þetta er svolítið óvíst ennþá hvernig þetta allt saman verður.“

„Ég heyrði það á svæfingalækninum í morgun að þeir séu búnir að hittast oft og spá mikið og spekúlera í þessu. Ég hef rosalega góða tilfinningu fyrir þessu öllu saman,“ segir hann. Læknarnir virki mjög spenntir fyrir þessu. „Þetta er náttúrulega mjög stór aðgerð á alla mælikvarða. Þeir sögðust gjarnan vera að framkvæma aðgerðir í 4-6 tíma en þessi verður líklega allt undir 40 tíma þannig að það er rosalega mikill undirbúningur. Þeir ætla ekkert að klúðra þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert