„Líka til kleinur í Póllandi“

Óttar Proppé.
Óttar Proppé. Eggert Jóhannesson

„Ekkert er út á það að setja að ákveðin málefni séu tekin til hliðar og veitt athygli,“ sagði Óttar Proppé, þingmaður Bjartar framtíðar í sérstakri umræðu um þjóðmenningu á Alþingi í dag. Þó sagðist hann spyrja sig hvort verið væri að gera upp á milli menningar eftir tegund. Íslensk þjóð og menning sé það fólk sem hér býr. „Það eru líka til kleinur í Póllandi, nema þær eru stafsettar með y og z. Hvað er íslenskt og hvað ekki?“

Staða þjóðmenningar og menningarmála almennt í stjórnskipuninni var tekin til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag þar sem sérstaklega var vikið að henni í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Auk þess voru nokkur þjóðmenningartengd verkefni færð til forsætisráðuneytisins frá menntamálaráðuneytinu með forsetaúrskurði, en það eru; Vernd sögulegra- og menningartengdra byggða og skipulagsmál því tengd, vernd þjóðargersema, minjasöfn, húsafriðun, varðveisla menningararfsins, Minjastofnun Íslands, örnefni, bæjanöfn og stofnun Árna Magnússonar.

Þjóðmenning hvergi skilgreind

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagðist sakna þess að hugtakið þjóðmenning væri skilgreind stefnuyfirlýsingunni auk þess sem ekki væri tekið fram hvaða tilgangi flutningurinn þjónaði og að hvaða markmiðum væri stefnt. Þá velti hún því upp hvort þetta væri til að bæta stjórnsýsluna og auka gagnsæi.

„Þjóðmenning er eðli málsins samkvæmt flókið hugtak að skilgreina,“ sagði Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Hann sagði flutninginn endurspegla áherslur ríkisstjórnarinnar, mikilvæg málefni væru þarna á ferð og ekkert óeðlilegt við að þau væru flutt undir forsætisráðuneytið.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði ráðherra vera embættismenn sem sinna ættu embættum, ekki áhugamálum sínum, og sagðist hafa á tilfinningunni að hér væri áhugasvið forsætisráðherra að ráða för.

Pólitísk áhersla endar ekki alltaf vel

„Sérstök pólitísk áhersla á þjóðmenningu hefur ekki alltaf endað vel. Viðvörunarbjöllur hringja eða í besta falli eru stórar spurningar sem upp vakna,“ sagði Guðmundur Steingrímsson þingmaður Bjartrar framtíðar. Hann sagði að tengsl manns við þjóð væru margslungin og tilfinningaríkt samband, sem gæti verið notað til að búa til einskonar pólitíska rétthugsun og móta afstöðu í deilumálum. Þá sagði hann að rétt væri að leggja áherslu á alla menningu og þjóðir; fjölmenningu, hámenningu, lágmenningu og ómenningu.

Svandís Svavarsdóttir furðaði sig á því hvers vegna menntamálaráðherra gæti ekki skilgreint hugtakið þjóðmenning og spurði hvort það væri vegna þess að hann hefði ekki verið þeirra gæfu aðnjótandi að fá boð í sumarbústaðarferð í aðdraganda ríkisstjórnarmyndunar og því ekki komið að þessari ákvörðun um þjóðmenninguna. Torkennilegt sagði hún að rökstuðningur ákvörðunarinnar væri ekki betri.

Enginn þjóðrembingur

Katrín Jakobsdóttir sagði menningu í eðli sínu vera landamæralausa og auðgast á því hversu opin hún er. Þá sagði hún það vera skynsamlegra, í anda þeirrar skynsemishyggju sem ríkisstjórnin boðaði að halda menningu saman. Erfitt væri að skilgreina þjóðmenningu sérstaklega og aðgreina.

„Aðalatriðið er að ekki er verið að slíta menningu í sundur og það fer fjarri lagi að um einhverskonar þjóðrembing sé að ræða,“ sagði Illugi.

Frétt mbl.is: Íslensk þjóðmenning verður í hávegum

Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson mbl.is/Ómar Óskarsson
Talað er um mikilvægi þjóðmenningar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar
Talað er um mikilvægi þjóðmenningar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert