Sauðfé við heimili forsætisráðherra

Húsið að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð þar sem forsætisráðherrann á lögheimili.
Húsið að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð þar sem forsætisráðherrann á lögheimili. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Sigmundur Davíð hefur nú bara gist hér eina nótt þó hann skráður til heimilis hér,“ segir Jónas Guðmundsson bóndi á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð á Fljótsdalshéraði. Hann er eigandi hússins að Hrafnabjörgum III, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og fjölskylda hans eiga lögheimili.

Torfeinangrun í veggum

Fjórbýlt er á Hrafnabjörgum og umrætt hús, sem nú gengur meðal heimamanna undir nafninu Ráðherrabústaðurinn, er byggt 1949. Það er um hundrað fermetrar að flatarmáli, og er úr tvöfaldri steinsteypu með torfeinangrun í veggjum. Jónas Guðmundsson eignaðist húsið fyrir nokkrum árum og er langt kominn með endurgerð þess. Nú er verið að setja upp sólpall og leggja drenlagnir við húsið og skýrir það hvers vegna skurðgrafa stóð á bæjarhlaðinu þegar tíðindamaður mbl.is átti leið hjá. Í heimreiðinni var sauðfé, nýbornar ær með lömb.

„Ég eignaðist þessa jörð fyrir sex árum og þá hugsjón að gera húsið upp. Landbyggðin hefur upp á svo margt að bjóða. Það var samt aldrei inni í myndinni svona í upphafi að Sigmundur Davíð yrði þarna til heimilis. Núna erum við búin að taka þetta algjörlega í gegn bæði að innan og utan. Ætli ég leigi húsið ekki eitthvað út í sumar og kannski vill forsætisráðherrann vera hér einhverja daga, enda þótt hann sé líklega í þeirri stöðu að geta ekki gert plön marga daga fram í tímann. En velkominn er hann," segir Jónas sem var einn upphafsmanna þess að Sigmundur hóf afskipti af stjórnmálum í byrjun árs 2009.

Kallaður Mundi á Hrafnabjörgum

„Sumir segja mig vera guðföður Sigmundar. Við vorum nokkrir framsóknarmenn hér fyrir austan sem rann til rifja þær hremmingar sem flokkurinn okkar var í. Kölluðum því til Sigmundar og hvöttum hann til framboðs. Þú þekkir framhald þeirrar sögu og leiðtogi okkar er mjög vaxandi, að mínu mati,“ segir Jónas sem kannast við að á Héraði hafi forsætisráðherrann viðurnefni.

„Faðir minn, Guðmundur Björnsson, var jafnan kallaður Mundi á Hrafnabjörgum. Nú skilst mér að Sigmundur gangi undir þessu nafni.“

En sést Sigmundur Davíð eitthvað á heimaslóðum austur í Jökulsárhlíð? Helga Hallgrímsdóttir sem býr á einum Hrafnabjargabændum svarar því vel og skemmtilega. „Nei, hann sést ekki mikið. Annars veit ég það ekki vel; þekki ekki einu sinni bílinn hans.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á skrifstofu sinni í Stjórnarráðshúsinu í Reykjavík.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á skrifstofu sinni í Stjórnarráðshúsinu í Reykjavík. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert