Vörur frá hernumdum svæðum Palestínu verði merktar

Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar.
Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sex stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt að nýju fram tillögu á Alþingi um merkingar á uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu. Um leið er einnig lagt til að Palestínumönnum verði gert kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu. 

Í greinargerð með tillögunni segir að víða um heim hafi bæði stjórnvöld og neytendur vaknað til vitundar um að hluti útflutningsvara frá Ísrael eigi uppruna sinn ekki að rekja til svæða innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis, sé miðað við upprunalegu landamæri ríkisins frá 1948, heldur til ólöglegra landnemabyggða á hernumdum svæðum Palestínu.

Þessum byggðum hefur farið fjölgandi undanfarin ár og er íbúafjöldi þar kominn yfir hálfa milljón þótt þær stríði gegn alþjóðlega viðurkenndum landamærum, úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag og fjölda ályktana Sameinuðu þjóðanna. 

Ætti ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland

„Ísland hefur aldrei – ekki frekar en Sameinuðu þjóðirnar – viðurkennt landnemabyggðirnar sem hluta Ísraelsríkis. Það ætti því ekki að viðurkenna Ísraelsríki sem upprunaland þeirra vara sem framleiddar eru í landnemabyggðunum,“ segir í greinargerð með tillögunni. 

Flutningsmenn tillögunnar eru þau Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir í Vinstri grænum, Össur Skarphéðinsson og Helgi Hjörvar í Samfylkingunni og Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati.

Tillagan var upphaflega flutt á síðasta þingi og afgreidd úr atvinnuveganefnd sem mælti með samþykkt þess. Ekki kom þó til endanlegrar afgreiðslu málsins á síðasta þingi og er tillagan því endurflutt óbreytt.

Ísraelska landnemabyggðin Ramot í Jerúsalem.
Ísraelska landnemabyggðin Ramot í Jerúsalem. AHMAD GHARABLI
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert