Brotlending við Sultartangalón

TF-TAL hafnaði á hvolfi.
TF-TAL hafnaði á hvolfi. Ljósmynd/Ófeigur Ö. Ófeigsson.

Lítil flugvél af gerðinni Cessna, TF-TAL, þurfti að nauðlenda við Sultartangalón fyrr í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa þurfti vélin að lenda vegna vélarvandræða. 

Við lendingu hafnaði vélin á hvolfi og staðnæmdist hún þannig. Samkvæmt heimildum mbl.is var einn maður um borð í vélinni þegar óhappið varð. Maðurinn er sagður hafa sloppið ómeiddur frá nauðlendingunni.

Þegar mbl.is náði tali af Rannsóknarnefnd samgönguslysa voru menn á þeirra vegum á leið á slysstað og gátu því ekki gefið frekari upplýsingar um atvikið.

Sjónarvottur á svæðinu staðfesti í samtali við mbl.is að vélin væri á hvolfi. „Ég sá flakið en ekki slysið sjálft [...] Vélin virðist liggja á hvolfi uppi á mel, u.þ.b. 100 metra frá bökkum Þjórsár.“

Samkvæmt heimildum mbl.is voru björgunarmenn sem starfandi eru á vegum Ístaks á virkjunarsvæðinu við Búðarháls sendir á slysstað.

Mynd úr safni/Sultartangalón
Mynd úr safni/Sultartangalón Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert