Kann að kosta Ísland þúsund störf

AFP

Þýska Bertelsmann-stofnunin telur að náist fríverslunarsamningar á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna kunni það að leiða til fjölda nýrra starfa í ríkjum sambandsins og Bandaríkjanna sem og launahækkunar. Hins vegar myndi slíkur samningur þýða fækkun starfa í ríkjum sem stæðu utan samningsins.

Fram kemur á fréttavef þýska tímaritsins Spiegel að þannig kunni að skapast um ein milljón nýrra starfa í Bandaríkjunum og um 400 þúsund í Bretlandi en forsendurnar sem stofnunin gefur sér eru, auk þess að samningar náist, að um verði að ræða hefðbundinn fríverslunarsamning með víðtækri niðurfellingu tolla og annarra viðskiptahindrana. Hins vegar muni Íslendingar verða af um eitt þúsund störfum, Norðmenn um 12 þúsund, Japanir 72 þúsund störfum og Kanadamenn um 102 þúsund.

Þess má geta að haft var eftir Karel De Gucht, viðskiptastjóra ESB, í fréttatilkynningu frá sambandinu í apríl síðastliðnum að nánustu viðskiptaríki sambandsins ættu hvað mesta möguleika á því að hagnast á mögulegri fríverslun á milli þess og Bandaríkjanna. Einkum þau ríki sem væru aðilar að innri markaði ESB í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eins og Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert