Stálu 600 lítrum af olíu

Ekkert lát er á olíuþjófnaði af vörubifreiðum og vinnuvélum í umdæmi lögreglunnar á Selfoss. Um helgina var um 600 lítrum stolið af vinnuvél sem stóð við Grafningsveg skammt frá bænum Hlíð.

Umferð var talsverð um helgina í Árnessýslu og gekk vel nema að allt of margir óku of hratt eða 59 ökumenn.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og tveir fyrir ölvunarakstur. Nokkrir hafa verið kærðir fyrir réttindaleysi og að hafa ekki verið með ökuskírteini meðferðis.

Lögreglu á Selfossi hefur borist nokkur skilríki sem dyraverðir skemmtistaða hafa tekið af einstaklingum sem reyndu að komast inn á staðina með skilríki sem reyndust fölsuð. Málin verða tekin til rannsóknar en fölsun skilríka er að sjálfsögðu alvarlegt brot. Ungmenni hafa líka í sumum tilfellum framvísað skilríkjum sem varða aðra einstaklinga sem eru eldri. Það er einnig brot á hegningarlögum.

Tvö minni háttar fíkniefnamál komu upp um helgina þar sem einstaklingar voru með kannabisefni í vörslum sínum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert