Skuldarar fá leiðréttingu

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson.

„Þetta á ekki að trufla fasteignamarkaðinn. Mikilvægt er að fram komi að þeir sem hafa orðið fyrir ófyrirséðri höfuðstólsbreytingu vegna hrunsins fá leiðréttingu,“ segir Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en nefndin ræddi í morgun aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna auk annarra mála.

„Það á ekki að hafa áhrif þó að viðskipti hafi síðar átt sér stað eða húsnæði verið selt. Sá sem var skuldari við höfuðstólshækkunina varð fyrir tjóninu.“ Fyrir nefndinni liggur nú þingsályktunartillaga með aðgerðarlista í 10 liðum vegna skuldavanda heimilanna.

Vinna á frumstigi

Ekki var farið ítarlega í einstök atriði í morgun, en fólk úr ráðuneytum mætti og kynnti innihald tillögunnar. „Við erum núna að fara yfir innihaldið og þetta verður síðan lagt fyrir þingið og séð hvort vilji sé hjá því til að fela ríkisstjórninni að fara í þessi verkefni. Þetta er heldur óvenjulegt fyrirkomulag þar sem ríkistjórnin hefur í raun svigrúm til að skipa í starfshópa, en við stefnum að breiðri samstöðu með þessu.“

Lækkun virðisaukaskatts styrkir samkeppnisstöðu

Virðisaukaskattur á ferðaþjónstu var einnig ræddur á fundinum. „Ábati ríkissjóðs af lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er mikill og mun koma víða fram i samfélaginu.“ 

Frosti segir gistinguna sjálfa ekki vera stóran hluta þess sem ferðamenn eyða í landinu, mikilvægt sé að fá þá til landsins því þegar það takist komi þeir með gjaldeyri inn í landið. Hann segir lækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu styrkja samkeppnisstöðu Íslands. „Við erum í erlendri samkeppni um að fá gesti. Þeir geta valið að fara til annarra landa og hafa augun á verðlagi gistingar. Yfir Evrópulöndin er meðaltalið 10% VSK, en fer niður í 5,5% í Frakklandi og 6% í Belgíu svo dæmi séu tekin.“

Óheppilegt að ferðaþjónustan njóti sérhagræðis

Steingrímur J. Sigfússon, sem einnig situr í nefndinni, telur óheppilegt að ferðaþjónustan sé í öðru skattalegu umhverfi. „Ég hef áhyggjur af tekjutapi og á meðan engar mótvægisaðgerðir eru boðaðar til að stoppa í það gat hef ég áhyggjur.“ Þá segir hann vöxt ferðaþjónustunnar vera mikinn og raungengið lágt, aðstæður ættu því að vera góðar fyrir ferðaþjónustuna að takast á við hækkun. „Ég get ekki séð sterk efnahagsleg rök né finnst mér það heppilegt til lengdar að ferðaþjónustan, sem er að verða ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar í skilningi gjaldeyristekna, búi í einhverju allt öðru skattalegu umhverfi en annað atvinnulíf.“

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur skuldavanda heimilanna til umfjöllunar.
Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur skuldavanda heimilanna til umfjöllunar. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert