Höfnuðu tillögu um faglega úttekt

Tillaga borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, um að gerð yrði ítarleg þarfagreining og athugun á því hver sé ákjósanlegur staður fyrir miðstöð almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu áður en ákvörðun væri tekin um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar, var felld á borgarráðsfundi í gær. Tillagan gekk út á það að bornir væru saman ólíkir staðir sem verið hafi í umræðunni um slíka miðstöð eins og Kringlan, Mjóddin og BSÍ.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, bendir á að í ársgömlu minnisblaði Strætó bs. komi fram verulegar efasemdir um að BSÍ sé hentugasti staðurinn fyrir nýja miðstöð fyrirtækisins. Slíkar efasemdir gefi fullt tilefni til þess að val um nýja miðstöð almenningssamgangna fari fram á grundvelli slíkrar faglegrar úttektar þar sem dregnir séu fram kostir og gallar ólíkra valkosta.

„Engin slíkt úttekt hefur farið fram í þessu ferli. Ég tel því ljóst að meirihluti borgarráðs tekur umrædda ákvörðun um framtíðarstaðsetningu aðalskiptistöðvar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á veikum forsendum og án þess að faglegt mat liggi fyrir um kosti og galla ólíkra leiða,“ segir hann og bætir því við að tilgangurinn virðist vera að réttlæta vanhugsuð kaup Reykjavíkurborgar á BSÍ-húsinu fyrir 445 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert