Segir vinnubrögðin „fúsk“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG og fyrrverandi umhverfisráðherra. mbl.is/Eggert

„Mér finnst þetta fúsk. Þetta eru vinnubrögð sem eru fyrir neðan allar hellur,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi umhverfisráðherra, um ákvörðun núverandi umhverfisráðherra að fresta því að undirrita friðlýsingu vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum í dag.

Til stóð að undirrita friðlýsinguna í dag kl. kl. 15 í Árnesi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Við sama tækifæri áttu fulltrúar sveitarfélaganna að undirrita yfirlýsingu um friðlýsinguna.

„Þetta er dæmalaust að svona gerist. Það gengur ekki svona framkoma gagnvart sveitastjórnarfólki og heimamönnum, umhverfisstofnun og öllum þessum aðilum. Það er ekki lítill undirbúningur fylgir því að boða til undirritunar í Árnesi. Þetta er ekki eitthvað sem er gert á skrifborði ráðherrans, sem er dagpart í viku í umhverfisráðuneytinu,“ segir Svandís í samtali við mbl.is. Hún bætir við að ráðherra verði að vera með hugann við efnið.

Í viðtali í Morgunútvarpi Rásar tvö í morgun sagði Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra að alvarlegar athugasemdir hefðu komið fram frá tveimur sveitafélögum og einum fagaðila, og því væri rétt að staldra við og endurskoða friðlýsingu Þjórsárvera. Friðlýsingin hefði þýtt að fyrirætlanir um Norðlingaölduveitu væru úr sögunni.

Svandís segir að Norðlingaölduveita sé í verndarflokki rammaáætlunar. „Þetta fólk hefur talað um að það sé hægt að snerta biðflokkinn í átt til nýtingar, en það hefur aldrei áður verið nefnt að svæði á Íslandi, sem eru í verndarflokki, að þeim eigi að svipta í nýtingarflokk með einu pennastriki - hvað þá með viðtali við iðnaðarráðherra á vefmiðli,“ segir Svandís.

Umhverfisráðherra fer með náttúruvernd - ekki iðnaðarráðherra

Þá bendir Svandís á að aðdragandi málsins sé langur. „Hún [tillagan um friðlýsinguna] var auglýst í mars og öllu samráði var lokið í apríl. Þannig var það. Friðlýsingar eru á borði umhverfisráðherra og hann getur lokið friðlýsingum á grundvelli náttúruverndarlaga og til viðbótar þá hefur hann umboð á grundvelli rammaáætlunar. Það má segja að það væri eðlilegt að hann kynnti málið í ríkisstjórn til þess að menn kæmu ekki af fjöllum og færu að úttala sig í veffjölmiðlum. Hins vegar er það alveg ljóst að náttúruvernd er á borði umhverfisráðherra en ekki iðnaðarráðherra,“ segir Svandís.

Hún vísar til ummæla sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lét falla í samtali við mbl.is í gærkvöldi. Þar kom fram að hún teldi málsmeðferðina óviðunandi og full ástæða væri til að staldra við. Hún hefði því farið fram á það við umhverfis- og auðlindaráðherra að hann frestaði þessari undirritun.

Svandís segist velta því fyrir sér hvaða sess umhverfis- og náttúrmál skipa þegar menn umgangast málaflokkinn með þessu hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert