„Gríðarlegar upphæðir“ færu út úr sveitarfélögum

Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna. mbl.is/Ómar

Hækkunin á sérstaka veiðigjaldinu í uppsjávarfiski sem lögð er fram í frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um breytingar á veiðigjöldum kæmi mjög illa við einstök byggðarlög þar sem uppsjávarútgerðir eru. Þetta segir Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.

„Þetta eru gríðarlegar upphæðir sem fara út úr Vestmannaeyjum, Fjarðabyggð, Hornafirði og eins út úr Reykjavík vegna þessarar hækkunar,“ segir Adolf.

Þá bendir hann á að einnig sé mikil óvissa í kringum uppsjávarveiðarnar. Þannig sé til dæmis ekki enn búið að gefa út loðnukvóta og óvíst hvort loðnuvertíð verði eða ekki. „Það er náttúrlega gríðarleg fjárfesting sem liggur þarna á bak við í bræðslum, skipum, búnaði og vinnslu í landi,“ segir Adolf.

Aðspurður hvaða áhrif það hefði ef frumvarp ráðherrans yrði ekki að lögum segir Eiríkur Tómasson, forstjóri útgerðarfélagsins Þorbjarnar: „Miðað við ástandið í dag væri verið að hirða allan hagnað af rekstrinum og meira til og mjög mörgum bolfiskútgerðum myndi blæða út við slíkan gjörning.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert