Fær hæli í „lýðræðislegu ríki“

Margir telja Edward Snowden hetju.
Margir telja Edward Snowden hetju. AFP

Fram kemur á Twitter-síðu Wikileaks í morgun að fulltrúar uppljóstrunarsíðunnar hafi hjálpað Edward Snowden, fyrrverandi starfsmanni bandarísku leyniþjónustunnar CIA, að fá pólitískt hæli í „lýðræðislegu ríki“. Ekki kemur fram hvaða ríki um er að ræða. Skilaboðin voru sett á Twitter-síðuna í kjölfar frétta af því að Snowden hafi yfirgefið Hong Kong í morgun og haldið til Moskvu, höfuðborgar Rússlands.

„Wikileaks hefur aðstoðað með pólitískt hæli hr. Snowdens í lýðræðislegu ríki“ ferðaskilríki og örugga brottför frá Hong Kong,“ segir á Twitter-síðunni. Þar segir einnig í annarri færslu að Snowden sé kominn í rússneska lofthelgi og að með honum í för séu lögfræðilegir ráðgjafar á vegum Wikileaks.

Hugsanlega á leið til Ekvadors eða Kúbu

Kínverska dagblaðið South China Morning Post greindi frá því í morgun á vefsíðu sinni að Snowden hafi yfirgefið Hong Kong þar sem hann hefur haldið til undanfarið. Þar hefur hann upplýst um víðtækt eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA) með síma- og netnotkun í Bandaríkjunum og Kína sem og hliðstætt eftirlit breskra leyniþjónustustofnana.

Fram kemur í frétt South China Morning Post að Moskva sé ekki endanlegur áfangastaður Snowdens og leitt að því líkum að hugsanlega ætli hann þaðan til Íslands eða Ekvadors. Athygli vekur að færslur á Twitter-síðu Wikileaks um ferðalag Snowdens eru bæði á ensku og spænsku en fyrri færslur eru eingöngu á ensku. Hugsanlega bendir það til þess að Snowden sé á leið til spænskumælandi lands. Þá mögulega Ekvadors en Kúba hefur einnig verið nefnd til sögunnar sem mögulegur áfangastaður í erlendum fjölmiðlum í morgun sem og Vensúela.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert