Lántakendur og lánastofnanir gæti sín á verðtryggðum lánum

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, segir það sína persónulegu skoðun að heillavænlegast sé að lántakendur og lánastofnanir gæti sín á verðtryggðum lánum á meðan vafi ríkir um lögmæti þeirra.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, ræddi stöðu verðtryggðra mála á Alþingi í dag. Hún benti á að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að afnema verðtryggingu af neytendalánum og breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán eftir því sem kostir gefst.

Hún spurði Frosta hvort hann teldi það eðlilegt eða ábyrgt af fjármálastofnunum að halda áfram að veita verðtryggð lán miðað við núverandi aðstæður. „Er ekki rétt að fjármálastofnanir hætti veitingu verðtryggðra lána þegar stefnt er að því að banna þau á komandi þingi,“ spurði hún.

Þá bætti við hún að áætlanir ríkisstjórnarinnar hafi nú þegar skapað ákveðna óvissu, t.d. á fasteignamarkaði. „Fjármálafyrirtækin sjálf gætu eytt þessari óvissu með því að hætta að veita verðtryggð lán þó það sé enn heimilt,“ sagði Sigríður.

Í framhaldinu spurði Sigríður Frosta hvort hann væri, sem formaður efnahags- og skattanefndar, reiðubúinn að mælast til þess að fjármálastofnanir hætti nú þegar að veita verðtryggð lán til að draga úr umræddri óvissu.

„Það ríkir vafi ennþá á lögmæti þessara lána. Það er einhver vafi þar. Þá sé -  ég tek undir það með þingmanninum - hugsanlega vissara að taka ekki of mikið af þeim; að leggja minni áherslu á þau. En mér skilst reyndar að það sé farið að gæta þess að fólk tekur síður verðtryggð lán núna,“ sagði Frosti.

„Það er stefna ríkisstjórnarinnar að vinna þetta með vönduðum hætti. Tillagan er sú að það verður settur í gang sérfræðihópur til þess að skoða alla anga málsins og útfæra afnám verðtryggingar á þessum neytendalánum sem eru ætluð til íbúðakaupa, og að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Það er hópsins að meta áhrif á þessum breytingum í víðum skilningi og gera tilraun til að lágmarka þá neikvæð áhrif,“ sagði Frosti í umræðum um störf þingsins í dag.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í pontu í dag.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í pontu í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert