„Í bullandi vandræðum með að reka núverandi kerfi“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að íslenska ríkið sé í „í bullandi vandræðum“ með að reka núverandi heilbrigðiskerfi. Hann vill leggja áherslu á að vinna bug á þeim vanda sem við sé að glíma í kerfinu í dag. Þegar menn hafa náð þettu taki á því þá „tel ég að við getum farið að hugsa alvarlega um steypu.“

Þetta sagði ráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi um byggingu nýs Landsspítala. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi velferðarráðherra, spurði Kristján út í stöðu nýja spítalans.

„Ástandið í heilbrigðiskerfinu um þessar mundir er með þeim hætti að þar er viðvarandi hallarekstur á ótal stofnunum. Þær hafa gengið á allar fyrningar sínar og inneignir og við erum í bullandi vandræðum með að reka núverandi kerfi,“ sagði Kristján Þór.

„Mitt áherslumál, númer eitt, tvö og þrjú, er að vinna bug á þeim vanda sem við er að glíma í kerfinu í dag. Þetta snýst um það fólk sem hvoru tveggja vinnur inni í íslenska heilbrigðiskerfinu og það fólk sem heilbrigðiskerfið á að þjónusta. Og fyrr en við erum komin með þétt tak á þessu félagslega neti, sem í heilbrigðiskerfinu er, þá fyrst, þegar það er fengið, tel ég að við getum farið að hugsa alvarlega um steypu,“ sagði ráðherrann.

„Ég óska þess heitast af öllu að þingheimur allur standi saman um það verk að koma íslenska heilbrigðiskerfinu á fæturna aftur, sem gefur okkur þá færi til þess að horfa með þeirri bjartsýni og trú til nýrra tíma og gefa okkur færi á því að reisa heilbrigðisþjónustuna og endurnýja húsakostinn; reisa hana úr þeim rústum sem hún er að stefna í í dag. Hún er í fjárhagslegu svelti. Það eru mörg verk að vinna þar,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Vantar fjárheimildir

Guðbjartur spurði Kristján m.a. hvort það standi til að hætta við núverandi forval vegna útboðs á hönnun nýrra Landspítalabygginga og hvort áætlanir liggi fyrir varðandi framhald byggingarinnar.

Kristján svaraði því neitandi að það stæði til að hætta við forvalið og bætti við að það lægju engar áætlanir fyrir um framhald byggingarinnar, en það tengist gerð fjárlaga. „Málið er í rauninni í þeirri stöðu sem fyrrverandi ríkisstjórn markaði því,“ sagði Kristján og vísaði til þess að forvalið hafi verið auglýst í apríl og sá frestur sem hafi verið gefinn út í tengslum við það verði til 18. júlí. Síðan sé frestur til 20. ágúst, eða þar um bil, til að vinna úr umsóknum sem berast. Svo sé gildistími forvalsumsókna níu mánuðir, eða allt til loka maí 2014.

„Það háttar þannig hins vegar til að það eru engar fjárheimildir til til þess að vinna áfram að málinu þegar forvalsfresturinn rennur út. Hvernig svo sem við horfum til þessa verks þá þarf, með einum eða öðrum hætti, að taka ákvörðanir í þessu efni tengdar fjárlögum íslenska ríkisins á árinu 2014,“ sagði heilbrigðisráðherra.

Verkinu mun seinka

„Ég geri ekki ráð fyrir því að við tökum það mál inn í fjáraukalögin á þessu ári heldur verði að horfa til næsta árs ef að menn ætla að halda þessu fram. Þegar málið var kynnt inn í fjárlaganefnd í upphafi þessa árs þá gerðu menn ráð fyrir því að framkvæmdir myndu hefjast á árinu 2013. Og það er alveg fullljóst að þær muni ekki ganga upp á þessu ári og verkinu muni því seinka,“ sagði ráðherra.

Guðbjartur spurði ráðherra jafnframt út í orðalag sem komi fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um velferðarmál, en þar segir m.a. : „Húsakostur Landspítala er óviðunandi. Leggja þarf áherslu á viðhald og endurbætur á núverandi
húsa- og tækjakosti stofnunarinnar þar til varanleg lausn fæst.“

„Má skilja það þannig að það eigi að gera hvorttveggja; byggja nýtt hús og bæta tækjakostinn í núverandi byggingum sem væri hið besta mál,“ sagði Guðbjartur.

Í þriðja lagi spurði hann hvort það sé ekki óhjákvæmilegt að byggja nýjan Landspítala til að uppfylla ákvæði stefnuyfirlýsingarinnar þar sem segir: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd um tækjakost, aðbúnað
sjúklinga og aðstæður starfsmanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert