Ísland aftarlega í mannréttindum fatlaðra

Freyja Haraldsdóttir sótti námskeið um fötlunarlöggjöf í heiminum.
Freyja Haraldsdóttir sótti námskeið um fötlunarlöggjöf í heiminum. Morgunblaðið/Ernir

„Það sem sló okkur mest var að þegar við sátum á námskeiðinu og hlustuðum á frásagnir um stöðu fatlaðs fólks frá ólíkum löndum, þá samsömuðum við okkur stundum við þróunarlönd. Margt er líkt með baráttunni á Íslandi og í Japan, Víetnam og Afríku,“ segir Freyja Haraldsdóttir framkvæmdastjóri NPA miðstöðvarinnar sem sótti námskeið á Írlandi á dögunum um fötlunarlöggjöf í heiminum.

Ísland hefur ekki fullgilt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks

„Það sem er líkt með þessum löndum er að það er lítið samráð við fatlað fólk, það hefur litla rödd í samfélaginu og þarf að berjast mjög mikið fyrir því að komast að borðinu þar sem verið er að taka ákvarðanir,“ segir Freyja, en á námskeiðinu sem haldið var á vegum lögfræðideildarinnar í háskólanum í Galway var lögð rík áhersla á samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Samningurinn var undirritaður af Sameinuðu þjóðunum árið 2006, ári seinna undirritaði Ísland samninginn, en hefur ekki enn fullgilt hann. „Nú eru komin sex ár síðan að hann var undirritaður án þess að vera fullgiltur. Við erum meðal fárra landa í Evrópu og öðrum löndum í kringum okkur sem hafa ekki fullgilt samninginn og í mörgum nágrannalöndum okkar er ferlið um að innleiða samninginn komið mun lengra en hér á landi,“ segir Freyja.

Námskeiðið fjallaði aðallega um tvær greinar samningsins. Annarsvegar 19.gr sem fjallar um sjálfstætt líf og rétt fatlaðs fólks að lifa í samfélagi án aðgreiningar og hinsvegar 12.gr sem er um réttinn til sjálfsákvörðunar. „Þá var einnig mikið fjallað um innleiðingu samningsins og stöðuna í þeim efnum í heiminum. Þarna flutti erindi lögfræðingar, fræðafólk og baráttufólk frá öllum heiminum.“ Meðal annars flutti Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum, erindi um stöðu fatlaðs fólks á Norðurlöndunum og Freyja Haraldsdóttir og Embla Agústsdóttir fluttu erindi um stöðu notendastýrðar persónulegrar aðstoðar á Íslandi.

Vantar meira samstarf við fatlað fólk

„Okkar upplifun var sú að enn sé margt frumstætt á Íslandi varðandi innleiðingu samningsins og réttarstöðu fatlaðs fólks miðað við önnur lönd. Hér á Íslandi var gerð skýrsla um það hverju þurfti að breyta í lögum svo þau myndu ekki stangast á við samninginn, en síðan hefur ekki verið gert neitt meira,“ segir Freyja sem kallar eftir skýrari stefnu í þessum málum. 

„Hér er lítið sem ekkert samráð við fatlað fólk samanborið við Norðurlöndin. Þetta er verkefni innanríkis- og velferðarráðuneytisins en þarf einnig að vera gert í miklu samstarfi við fatlað fólk. Það er einnig partur af samningnum að það eigi ekki að taka ákvarðanir um líf hóps af fólki án þess að hann taki þátt í því að einhverju leyti sjálfur,“ segir Freyja og nefnir því til stuðnings að nýlega hafi verið skipuð nefnd um samninginn þar sem sæti áttu fulltrúar hagsmunasamtaka. En ekki voru skipaðar fatlaðar manneskjur í nefndina og samtök sem rekin eru af fötluðu fólki var ekki boðið sæti í nefndina. „Þarna vantar að einhver fötluð manneskja fái sæti við borðið.“

„Það er í rauninni litið svo á hér á Íslandi að við séum ekki sérfræðingar í eigin lífi, heldur séu aðrir betur til þess fallnir að móta samfélagið fyrir okkur. Það er í algjörri mótsögn við samninginn sem slíkan.“

Við þurfum að virkja fatlað fólk

Freyja segir það hafa verið virkilega hvetjandi að fara á námskeið líkt og þetta og hitta annað fólk sem stendur í sömu baráttu. „Það minnir okkur á það sem við þurfum að vinna í og gera betur. Þá lærum við einnig margt af öðrum,“ segir Freyja og bætir við að þau þurfi að minna sig reglulega á það að það geri þetta enginn fyrir þau.

„Það er eins í löndunum í kringum okkur, það gefur þér engin réttindi heldur þarftu að beita þér fyrir því að fá þau. Við fengum talsverðan innblástur hvað það varðar, að efla hér á landi samstöðu fatlaðs fólks til að þrýsta á stjórnvöld og veita þeim meira aðhald.“

Þá telur Freyja eftir námskeiðið að td. í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Bretlandi séu öflugri baráttuhópar og fatlað fólk láti frekar í sér heyra. „Ótti fatlaðs fólks hér á landi við að láta í sér heyra er mikill. Það er oft hrætt um að það bitni á þeim, t.d. með lélegri þjónustu eða dónalegra viðmóti hjá fólkinu sem veitir þjónustuna.“

„Ég vil sjá aðgerðaráætlun“

Aðspurð hvernig hún vilji að stjórnvöld beiti sér í því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna segir Freyja að margt þurfi að gera þar sem þetta sé svo skammt á veg komið. „Ég vil sjá aðgerðaráætlun um hvernig eigi að fullgilda samninginn og hvaða aðgerðir þurfi að fara í til að fullnægja ákvæðum hans. Þá þarf að ákveða með hvaða leiðum eigi að tryggja það að fatlað fólk hafi fullan aðgang að þessu ferli og það sé leitað til okkar, því það erum við sem þurfum að lifa með ákvörðunum sem stjórnvöld taka um okkar líf. Við getum lært margt af löndunum í kringum okkur sem standa betur að vígi í þessum málum, þar sem settar voru tímasettar- eða kostnaðaráætlanir um fullgildinguna.“

Frá ráðstefnunni. Freyja Haraldsdóttir ásamt Máire Whelan, ríkislögmanni Írlands.
Frá ráðstefnunni. Freyja Haraldsdóttir ásamt Máire Whelan, ríkislögmanni Írlands.
Embla Agústsdóttir er lengst til vinstri á myndinni. Hún sótti …
Embla Agústsdóttir er lengst til vinstri á myndinni. Hún sótti námskeiðið ásamt Freyju Haraldsdóttur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert